Saturday, January 30, 2010

Youtube, Kvikmyndir og Tónlist Part II

Þegar ég skrifaði færslu seinast um youtube, þá minntist ég á það að kvikmyndin Where The Wild Things Are væri að fara koma út hér á Íslandi 11. desember. Hún var að detta í bíó núna loksins fyrir tveim dögum... Ég er samt sem áður spenntur fyrir að fá að sjá hana þrátt fyrir þessa bið. Djöfull verð ég reiður ef mér finnst hún svo ekkert sérstök.

Hins vegar þá ætla ég að fjalla um nokkra gimsteina (að mínu mati) sem ég er búinn að rekast á á youtube. Kannski er líka vert að minnast á að ég er næstum alveg hættur að horfa á sjónvarp. Það er svo miklu þægilegra að geta ákveðið hvað maður vill horfa á og hvenær með hjálp internetsins.

Ég mæli með að horfa á öll næstu myndbönd í eins góðum gæðum og youtube bíður upp á.

Can't - Alan Lastufka and Tom Milsom

Ég sá þetta myndband fyrst fyrir nokkrum dögum og síðan þá hef ég ekki getað hætt að hugsa um myndbandið né losnað við þessa melódíu! Þetta tónlistarmyndband var gert með photoshop og windows movie maker og er í stop motion! Sem er alveg fáránlegt! Hver í fjandanum hefur þolinmæðina í það? Photoshop? Ég á ekki til orð. Það kemur svo í ljós að sá sem býr yfir þessari þolinmæði er drengur sem er á mínum aldrei og ekki lítið hæfileikaríkur. Myndbandið er í fullkomnu synci við lagið og það eru ófá skot sem mér finnst vera snilld að því leyti. T.d. þegar hún klippir á spottann og þegar það er zoom-að á bílinn. Það er bara svo margt flott við þetta myndband! Skemmir ekki fyrir að mér finnst lagið vera gott og textinn líka. Góð hugmynd sem er framkvæmd frábærlega að mínu mati.



Berndsen - Supertime

Talandi um góðar hugmyndir sem eru framkvæmdar frábærlega... Það er eitthvað við þetta myndband. Ég man þegar ég sá byrjunina fyrst og vissi ekki hvað í fjandanum ég væri að gera að horfa á þetta. Svo komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri snilld. Fáránlegt alveg hreint, fólk sem lendir í bílslysi og þeir fyrstu sem finna það fara bara á eitthvað mega flipp? Góð hugmynd sem er svo ógeðsleg og ögrandi að maður gat ekki annað tjékkað á þessu og sýnt vinum sínum. Ekki slæmt framtak hjá íslenskri hljómsveit og kvikmyndargerðarmönnum sem hafa fengið margar tilnefningar á kvikmyndahátíðum fyrir myndbandið!




Mr. Okra

Þar sem við erum að fara sýna okkar heimildarmyndir á miðvikudaginn fannst mér við hæfi að setja þetta myndband hér inná. Mr. Okra er hreint út sagt einstakur gamall karl. Þessi stutta heimildarmynd er hluti af seríu sem leikstjórinn T.G. Herrington er að gera um stóran hluta menningararfs New Orleans sem er að hverfa með hverjum degi sem líður. Skemmtileg stutt heimildarmynd sem ég hafði mjög gaman af og leysti verk sitt auðveldlega með því að leyfa okkur að kynnast Okra á örfáum mínútum. Mjög skemmtileg myndataka og Mr. Okra er alveg óborganlegur. "I love women like I love my food... And I love my food!". Væri alveg til að spjalla smá við hann. Mann sem er hluti af menningu sem er að hverfa, barn síns tíma. Fann þetta á opinberri youtube síðu Sundance Film Festival þar sem hægt er að skoða fleiri stuttmyndir og margt annað.



The American Akira

Annar ungur kvikmyndagerðarmaður sem er ótrúlega hæfileikaríkur. Harry Partridge teiknar, talar inn á og semur tónlistina fyrir öll þau myndbönd sem hann gerir. Mér fannst þetta myndband ekki vera lítið fyndið þegar ég sá það fyrst þar sem þetta er svo satt! Hollywood er að mestu leyti orðið að stað þar sem að góðar hugmyndir eru teknar og endurgerðar (slátrað) og ef það er ekki raunin, þá er eitthvað tekið sem er 110% skothelt til að vera vinsælt. Stuttu áður en ég sá þetta myndband var ég nefnilega búinn að heyra af því að Leonardo DiCaprio og framleiðslufyrirtækið hans ætluðu að gera "live-action" endurgerð af anime myndinni Akira og staðinn fyrir að gerast í Neo-Tokyo þá gerist hún í Neo-Manhattan. Það verður gaman að sjá hvort að Harry hafi eitthvað rétt fyrir sér um umgjörð myndarinnar. Annað skemmtilegt myndband eftir hann er "Saturday Morning Watchmen" sem er fullt af fyndnum smáatriðum.




Coraline

Ég veit að ég er örugglega búinn að minnast á þessa mynd nokkrum sinnum í blogginu mínu en mér finnst hún bara eiga það skilið. Hún er að mínu mati ein af bestu myndum ársins 2009 og algjör sjónræn veisla. Mér fannst hún vera flottasta myndin sem ég sá í fyrra ásamt auðvitað Avatar. Henry Selick sem leikstýrði The Nightmare Before Christmas á heiðurinn að henni og eins og NBC (he he he) þá er Coraline stop motion mynd. Frábær mynd sem mér fannst mun betri en Up og Up var mjög góð. Ég næ mér ekki yfir það ennþá hvað það er ótrúlega mikið mál að gera svona mynd. Það lætur mig bera enn meiri virðingu fyrir henni. Þessar dúkkur voru svo raunverulegar að ég alveg lifði mig fullkomlega inn í myndina. Hún er líka frekar myrk og creepy sem ég fílaði í botn.



Til að sýna þeim sem lesa þetta líka hversu erfitt var að gera þessa mynd þá má finna örstutt 3 mínútna making of myndband á þessum link. Mæli sterklega með því!

http://www.joblo.com/really-cool-behind-the-scenes-featurette-for-coraline

Held ég segi þetta gott í bili en það er alltaf úr nógu að taka af youtube, ef maður nennir að leita. Líka algjör snilld hvað myndböndin þar eru núna í ótrúlega góðum gæðum, er alls ekki að hata það!

1 comment:

  1. Ég hélt ég væri búinn að fara yfir öll blogg fyrir 25. febrúar, en einhvern veginn hefur þitt farið framhjá mér.

    Mjög flott færsla. Ég var pínu fúll að þeir virðast hafa lokað fyrir Mr. Okra (en það er náttúrulega bara mér að kenna að hafa ekki lesið þessa færslu fyrir langa löngu).

    Sammála því að gæðin breyta ansi miklu fyrir youtube-áhorfið. Ég komst aldrei almennilega inn í þessa youtube menningu vegna þess að mér fannst gæðin alltaf svo fáránlega léleg. En það er ekki lengur raunin...

    9 stig.

    ReplyDelete