Sunday, August 30, 2009

Topplisti

Eins og öllum er auðkunnt er varla hægt að gera fastan lista yfir myndir sem maður er fullviss um að séu þær bestu sem maður hefur séð. Ég ætla nú samt sem áður að reyna og velja þær út frá því hvernig mér leið eftir að myndin kláraðist. Hvaða áhrif myndin hafði á mig. Það er ekki hægt að segja að ég sé "movie buff" en ég hef gaman að bíómyndum. Hér koma þá myndirnar í engri sérstakri röð.

No Country For Old Men

Þetta er hreint út sagt alveg ótrúleg mynd. Ég horfði á hana agndofa og sem dáleiddur. Tommy Lee Jones, Josh Brolin og Woody Harrelson sýna allir stórleik en það er engin annar en Javier Bardem sem algerlega stelur senunni, örugglega eitt besta illmenni sem ég hef séð. Þessi tómeygði jötunn sem sýnir enginn viðbrögð og drepur hvern sem er án þess að blikka! Hann var ótrúlegur í þessari mynd. Ég flakkaði milli þess að anda léttar um stundarsakir og kreppa hnefana þangað til þeir yrðu hvítir. Það kom mér svo allsvakalega á óvart þegar ég var kominn út úr bíóhúsinu og fattaði að ég mundi varla eftir engri tónlist. Ég fer heim og tjékka á þessu. Kemur í ljós að það er varla nein tónlist í myndinni! Coen bræðurnir eru snillingar, í þeim atriðum sem þeir loksins notuðu tónlist í var ég að deyja! Til dæmis peninga ræðan hans Antons. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Hreint út sagt frábær mynd.

Linkur hér á Peninga ræðuna:

http://www.youtube.com/watch?v=wkh6if8TL2U&feature=related


V for Vendetta

Ég játa að þessi mynd er kannski ekkert meistaraverk. En mér fannst hún alveg hræðilega góð þegar ég sá hana fyrst, og ég get horft á hana aftur og aftur án þess að leiðast. Framvinda sögunnar í bland við rödd Hugo Weaving var það sem gerði það fyrir mig. Ég man það fullkomnlega í hvaða sal og hvar ég sat í Háskólabíó þegar ég sá hana í fyrsta skipti. Seinasta korter myndarinnar hefði mátt heyra saumnál detta, og hefði einhver hóstað eða byrjað að tala... hefði ég örugglega ráðist á þá manneskju. Ég var algerlega heillaður. Nokkur atriði standa upp úr og þá sérstaklega þegar V sprengir upp "The British Parliament" og 1812 Overture hljómar undir.


The Pianist

Þetta er mynd sem ég hef einungis séð einu sinni. Ég var 13 ára þegar ég sá hana og hef ekki lagt í að horfa á hana síðan. Hræðilega sorgleg mynd um hvernig vilji eins manns til að lifa kemur honum í gegnum ótrúlegar ógöngur. Þessi mynd fékk mig til að uppgötva hversu hræðileg Helförin var. Áhrifarík atriði eins og gamli maðurinn í hjólastólnum og þegar Szpilman spilar í endann á myndinni.

The Pianist - Chopin Ballade No. 1 Linkur:

http://www.youtube.com/watch?v=ChtL5yUuSVY


Oldboy

Mynd sem ég leigði einn án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um. Þetta var rétt um hátind minn sem imdb-lurkermógull. Ég sá framan á hulstrinu helling af krönsum og sagði við sjálfan mig: "Afhverju ekki?". Held að ég hafi aldrei fengið jafn mikið fyrir peninginn. Hefndarsaga eins og þær gerast bestar. Í enda myndarinnar fékk ég svo mikið sjokk að ég var alveg búinn á því. Ótrúlega flott og vel gerð mynd ekkert annað hægt að segja.






Full Metal Jacket


Fyrsta Kubrick myndin sem ég sá og var ég þá frekar ungur. Þessi mynd brýtur dálítið regluna sem ég setti og það er að mér fannst hún bara góð þegar ég sá hana í fyrsta sinn, hún hafði enginn sérstök hughrif. Leikur Vincent D'Onofrio sem Pvt. Pyle er alveg framúrskarandi. Það var ekki fyrr en eftir á, þegar ég var orðinn smá eldri og horfði á hana í annað skipti að ég fattaði hversu mikil gagnrýni á Víetnam stríðið þessi mynd var. Loka atriðið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér þegar hersveitin sönglar M-I-C-K-E-Y M-O-U-S-E Mickey Mouse! Ótrúlega tilgangslaust atriði sem sýnir hversu ótrúlega tilgangslaust þetta stríð var.

MICKEY linkur:

http://www.youtube.com/watch?v=PmILOL55xP0


Boondock Saints


Þú hefur séð þessa oft á svona listum er það ekki Siggi? Þessi bíómynd um tvo írska bræður í leit að réttlæti sama hvað það kostar er allt í senn dramatísk, fyndinn og ógeðsleg allt í senn. Ef ég fengi tvö orð til lýsa henni þá væru þau: Willem Dafoe. Hlutverk hans er alveg óborganlegt. Maður vissi það frá því að hann setti á sig þessi gulu heyrnartól og byrjaði stjórna með tónlistinni og þegar hann skipar hálfvita löggunni til að ná í kaffibolla fyrir sig að hann væri snillingur. Ekki einungis er Dafoe svona ýktur heldur næstum allir aðrir. Hálfvita löggan er eins mikill fáviti og hægt er að vera, bræðurnir eru alltof harðir, barþjónninn er með Tourettes o.s.frv. Mynd sem ég dýrka.

Children of Men

Kvikmyndatakan í þessari mynd er geðveik og ekki er söguþráðurinn heldur af verri endanum! Ég horfði á þessa mynd og elskaði hvernig hún leit út. Myndin fangaði mig frá byrjun til enda og ég man eftir að hafa fengið gæsahúð á nokkrum stöðum. Kvikmyndatakan var ótrúlega raunveruleg en samt sem áður vel tekinn. Mér dettur strax í hug atriðið þegar mótorhjólið klessir á og þegar Theo hleypur inn í húsið og það er verið bombardera það í tætlur. Lítur út fyrir að vera ein taka, alveg ótrúlega flott.

Linkur á atriðið hér:

http://www.youtube.com/watch?v=2sdPRCjZ78o

Princess Mononoke

Myndirnar hans Hayao Miyazaki eru ekki slæmar, og ég elska þessa mynd. Hugarheimurinn, sagan og persónur hennar eru allt hrein snilld. Þessi mynd opnaði fyrir mér dyrnar að anime myndum og því er ég henni ávallt þakklátur. Þessi epíska mynd um baráttu náttúrunnar við endalausa græðgi og spillingu mannsins sem er reiðubúinn að eyðileggja hvað sem er svo lengi sem úr því er að fá pening er gerð listavel. Miyazaki er í essinu sínu og það er erfitt að sogast ekki inn í myndina.




Ég er án efa að gleyma helling af myndum en ég er samt sem áður ánægður með þennan lista. Fyrsta skipti sem ég reyni að gera einhvern slíkan. Eitthvað sem ég tek sjálfur eftir að ég kláraði að láta hann saman er hvað hann inniheldur margar þungar myndir, og myndir sem eru ádeila á heim okkar. Er alveg pottþétt að gleyma einhver geggjuðum hasar og feelgood myndum. En svona er lífið hverfult. Þetta voru þær myndir sem höfðu áhrif á mig og fengu mig til að hugsa eftir að þeim var lokið.