Sunday, February 28, 2010

L.A. Confidential

Að mínu mati er L.A. Confidential hin fullkomna Hollywood mynd. Ég horfði á hana í jólafríinu og þetta er örugglega besta mynd sem ég hef séð. Allaveganna í topp þremur. Ég hafði svo oft séð hulstrið af myndinni úti á leigu og alltaf hunsað það. Ég var búinn að ákveða að þessi mynd höfðaði ekki til mín. En svo í fyrra horfðum við á Chinatown sem mér fannst vera mjög góð. Eftir það las ég einhvers staðar eða heyrði, að þessi mynd væri í álíka stíl bara "nútímavæddari". Eftir að hafa séð hana get ég ekki sagt að mér finnist það alveg satt. Þó að þær eru líka að ýmsu leyti. En það var út af Chinatown að ég loksins ákvað að leigja hana af Borgarbókasafninu og því sé ég svo sannarlega ekki eftir.

L.A. Confidential kom út árið 1997 og var rænd Óskarnum sem besta mynd, þegar skepnan Titanic hirti öll verðlaun sem hægt var að hirða og enginn sagði neitt þar sem að hún var orðin tekjuhæsta mynd allra tíma. Eftir á að hyggja held ég að flestir séu sammála um það að L.A. er mun betri mynd en Titanic.

Myndin er byggð á bók eftir James Ellroy að sama nafni og er þriðja bókin af fjórleik. Myndin Black Dahlia eftir Brian De Palma er einnig úr þessum fjórleik en hún floppaði allhrikalega og er af flestum talin allt nema góð. Hins vegar hafa orðrómar verið lengi til um hugsanlegt framhald af L.A. Confidential og að sami leikstjóri og handritshöfundur L.A. ætluðu að vinna að þeirri mynd. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það... En ó jæja það skemmir samt sem áður ekki fyrri myndina þó að sú seinni verði léleg!

Það gengur nánast allt upp í L.A. Confidential. Það er smá óhuggulegt þegar ég pæli í því. Þríeykið Guy Pearce, Kevin Spacey og Russell Crowe eru frábærir og þetta er klárlega besta frammistaða Crowe's að mínu mati. Aukaleikarar standa sig líka vel og er réttur maður í hverju hlutverki. Kim Basinger, Danny Devito, James Cromwell, Simon Baker eru öll áhugaverð og gæða myndina lífi og frá því að maður sér þau fyrst þá finnst maður vita svo mikið um bakgrunn þeirra. Kannski er þetta bara ég sem skynja þetta svona, eða kannski er þetta vegna þess hversu miklar stereotýpur þau eru. Mér fannst þetta allaveganna virka vel.

Það er ekkert sem ég get sett út á kvikmyndatökuna. Hún er eins fullkominn og hægt verður í minni bók. Passar vel við atriðin, hvort það séu samtöl eða spennuatriði. Tónlistin hjálpar líka til að búa til rétt andrúmsloft fyrir þennan "neo noir" krimma ef ég leyfi mér að vitna í wikipedia. Það kom mér líka skemmtilega á óvart að Jerry Goldsmith gerði tónlistina fyrir myndina en hann gerði nefnilega líka tónlistina fyrir Patton.

Hérna er frábært atriði sem sýnir flotta kvikmyndatöku og tónlistina sem passar mjög vel við. Ég hef sérstaklega gaman af PoV skoti ljósmyndarans rétt áður en hann tekur myndina og svo þegar það er loks zoomað út og það er verið að halda á morgunblaðinu með myndina framan á. Þetta atriði er svo smooth.



Myndin er period mynd og heimurinn sem hún skapar er mjög áhugaverður. Spilling og skuggahliðar glamúrímyndar Los Angeles er komið vel til skila. Allt þetta sem ég hef nefnt fyrir ofan getur maður haft í bíómynd en hún getur samt sem áður verið ekkert sérstök eða í besta lagi mjög vel gerð. En L.A. hefur þetta allt og geðveikan söguþráð.

Kevin Spacey segir frá ímynduðum manni í þessari myndsem hefur gríðarleg áhrif á gang mála, og ekki er það í fyrsta skipti sem hann gerir það í bíómynd. Fatta þeir sem fatta geta. Það atriði sem hann segir frá þessum manni er svo snilldarlega gert og í bland við söguþráð sem er alltaf spennandi og áhugaverður gerir það þessa mynd með þeim bestu sem ég hef séð.

Ég er kannki blindur á L.A. Confidential því hún heillaði mig upp úr skónum við fyrsta áhorf en að mínu mati er erfitt að finna veikan punkt í henni. Svo ef þú hefur ekki séð þessa mynd en sérð hulstrið einhvers staðar. Gerðu þér þá greiða og horfðu á hana. Ekki dæma mynd út frá hulstrinu!

Hérna er trailerinn, hann er svo hræðilega cheesy og lélegur að hann gerir eiginlega myndina það mun betri í samanburði!



Djöfull er þetta slæmt. "They were three cops" Ugh..

Police Story

Það verður að segjast að þessi mynd kom öllum að óvörum sem sáu hana á miðvikudaginn. Hún var náttúrulega algjört bull. En svona á maður að gera skemmtilega spennumynd! Hún var fáránleg, fyndin og með klikkuð spennuatriði! Handritið var basically einungis til staðar til að einhvern veginn ná að festa saman nokkur stór áhættu og bardagaatriði.

Inn á milli þeirra atriða datt niður tempoið. Það er samt vel hægt að fyrirgefa myndinni það. Því hún var oft mjög fyndin þegar spennan var ekki í fyrirrúmi. Bæði fyndin þegar hún var að reyna það en oftast þegar hún var ekki að reyna það. Góð blanda af þessu tvennu er að finna t.d. þegar Jackie tekur með sér gelluna sem hann á að vera vernda með sér heim og ekkert gengur upp fyrir aumingjans karlinn.

Auk þess að leika aðalhlutverkið þá er Jackie líka leikstjóri myndarinnar og tekst honum frábærlega að skapa ánægjulega mynd sem að (sérstaklega) enginn karlmaður ætti að láta fram hjá sér fara!

Mörg atriði í myndinni voru alveg klikkuð og þá sérstaklega þegar lögreglan ákveður að elta glæpamennina niður hæð sem er uppfull af lélegum kofaskriflum, einhvers konar shanti town. Þetta er mjög gott dæmi um atriði sem er vel útpælt og kemur ótrúlega vel út. Michael Bay tók það svo upp á sína arma að endurgera þetta atriði nákvæmlega eins í mynd sinni Bad Boys II. Reyndar ekki alveg eins... það er svona þrefalt meira magn af sprengingum í því + það er gulur Hummer sem gereyðileggur allt sem verður fyrir vegi hans.

Hérna er upprunalega atriðið:



Hérna er það Michael Bay-að:



Ég ætlaði vart að trúa mínum eigin augum þegar að ég horfði á sum bardaga atriðin í þessari mynd. Hér ekkert verið að reyna rugla mann í ríminu með því að klippa spennuatriðin í sundur og saman. Heldur fær maður að sjá vel útpælt og vel choreogröphuð atriði. Mikið af áhættuatriðunum eru ekkert áhættuatriði, það er bara vel bókað að þú sért að fara meiða þig ógeðslega mikið. Hversu oft datt einhver ofan á gler og mölbraut það? Hversu oft var einhverjum hent harkalega á vegg? Djöfulsins snilld.

Ég held að það hafi svo verið Árni Gunnar sem sagði mér það að atriðið þar sem Jackie rennur sér niður einhver ljós í enda myndarinnar hafi þurft að vera tekið upp tvisvar. Því í fyrra skiptið hafi Jackie höfuðkúpubrotnað. Enda var þetta atriði sýnt þrisvar (ef ekki oftar) frá mismunandi sjónarhornum í myndinni.

Eins og allir heyrðu á miðvikudaginn gerðist það oftar en einu sinni að ég og strákarnir þurftum að gefa frá okkur hljóð eins og "aaaauhh!!" þegar við sáum þessi atriði. Ég veit ekki hversu langt síðan ég gerði það seinast. Maður hegðaði sér semí eins og maður væri tólf ára. Verð að segja að það sé stór plús en ekki mínus fyrir þessa mynd!

Svona á að gera góða poppkornsmynd. Fyndin, fáránleg og fullt af geðveikum bardagaatriðum. Það er orðið leiðinlegt hvað allar þessar hollywood hasarmyndir eru orðnar ömurlega klipptar með myndavél sem ætlar ekki að hætta að hristast. Þær eru líka alltof alvarlegar og einblína oftar en ekki á lélega sögu í stað þess að vera einblína sér á það sem þær ættu að vera að gera.

Að fá mig til að segja "aaaauuhh!!"

Þó að Drunken Master sé góð þá er þessi mynd muuuun betri.

Trailerinn fyrir myndinna hér:

Friday, February 26, 2010

Patton


Um daginn horfði ég á óskarsverðlauna myndina Patton frá árinu 1970. Hún fer rétt með sögulegar heimildir og setur þær fram fullkomlega. Mér fannst hún vera góð þegar ég horfði á hana en ekkert endilega frábær. En svo liðu dagarnir og einhvern veginn gat ég ekki losnað við þessa mynd úr hausnum á mér. Nú er ég á því að hún sé með betri myndum sem ég hef séð. Hún fékk mig til að hugsa, ekki bara um hversu góð hún væri. Heldur um sjálfan mig og annað fólk.

Það er mér ljóst að til að ná langt í lífinu þá verður maður að vera ákveðinn og hafa trú á sjálfum sér. Ef þú tekur ekki mark á sjálfum þér, afhverju ætti einhver annar að gera það? Það er lykilatriði fyrir alla í stjórnunarstöðum að hafa mikið sjálfstraust til að ná sem bestum árangri.

Það er enginn tilviljun að stærstu leikstjórar í heimi eru nærri því allir að springa úr sjálfumgleði og mikilmennsku. Menn eins og Michael Bay, Steven Spielberg, James Cameron fá ekki nóg af sjálfum sér og ég gæti haldið áfram að telja upp leikstjóra allt út í óendanleikann.
Kvikmyndaformið er nefnilega svo stórt batterí. Þetta er listform sem er hópíþrótt eins og Ragnar Bragason sagði. Allt frá handritaskrifum, myndatöku, lýsingu, hljóði og að lokum til klippingunar á seinasta skoti myndarinnar. Það koma svo margir að þessu ferli! En eitt finnst mér vanta við það sem Ragnar sagði, og það er að í svona hópíþrótt þarf kláran leiðtoga.

Svo ef leikstjórinn gefur eftir einhvers staðar og fylgir ekki sínu innsæi og sannfæringu um hvernig hann vilji að einhver tiltölulegur hlutur sé í myndinni. Þá eru gífurlega miklar líkur að hún verði ekki jafn góð og hún gæti hafa orðið. Vissulega á maður hafa hæft fólk í hverri stöðu með sína sérfræðiþekkingu. En ef leikstjórinn hefur ekki vissa hugmynd um það sem hann vill gera verður myndin aldrei frábær. Hún verður að öllum líkindum eitthvað miðjumoð.

Stanley Kubrick og Sergio Leone eru dæmi um frábæra leikstjóra sem voru klárlega með OCD. Það þurfti allt að vera fullkomið og ekkert múður um það! Sergio var guð má vita hvað mörg ár að gera Once upon a time in America og Kubrick er alræmdur fyrir að brjóta niður leikara og láta þá endurtaka sömu senuna aftur og aftur þangað til leikarinn er ekki að leika lengur, hann er hluti af senunni. Þeir treystu engum betur en sjálfum sér, enda gerðu þeir líka frábærar myndir. Þessir menn voru kannski léttgeggjaðir en þeir voru snillingar á sínu sviði.



Það sama má segja um George S. Patton einn allra besta hershöfðingja 20. aldarinnar. Hann var ekki eins og fólk er flest. Hann trúði því að hann gæti ekki gert mistök og ef eitthvað fór úrskeiðis eða ekki eins og hann vildi að það hefði farið. Þá var málið einfalt. Þetta var vilji Guðs og úr þessum hremmingum myndi hann rísa aftur tvíefldur! Fyrir framan hermenn sýna stóð hann með glansandi hjálm og Colt Peacemaker með handfang úr fílabeini við mjöðmina. Hann var dramadrottning, hataði hermenn sem þoldu ekki álagið og trúði á endurfæðinguna og að hann væri fæddur til að vera stríðsmaður. Í gegnum aldanna rás hafði hann staðið á öllum helstu vígstöðum, barist með Rómverjum, Alexander Mikla og í Napóleónstyrjöldunum.



Patton lætur engan aumingjagang viðgangast.

Eitt skipti færði hann hermenn sína yfir meira en 160 kílómetra á 48 klukkustundum um hávetur til að hjálpa bandarískum hermönnum sem voru innikróaðir af Þjóðverjum. Þetta var talið ógerlegt en hermenn Pattons höfðu svo mikla trú á honum að þeim datt ekki einu sinni í hug að þetta væri jafn fáránlega út úr kú og það var í raun og veru.

Myndin kemur öllu þessu til skila og George C. Scott er óaðfinnanlegur sem Patton. Kvikmyndatakan er frábær og það sést frá fyrsta atriði myndarinnar sem allir ættu að þekkja. Atriðið þar sem Patton stendur fyrir framan fána Bandaríkjanna og fer með ræðu.

Í myndinni er líka bombu tónlist sem passar vel við andrúmsloft myndarinnar.



Francis Ford Coppola skrifaði handritið að myndinni og hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt viðtal þar sem hann talar um handritaskrifin, gerð myndarinnar og "mistök" sem geta leynt á sér.



Það að vera hershöfðingi og að vera leikstjóri eru nefnilega ekkert sérlega ólík störf. Maður þarf að hafa marga af sömu kostunum til að geta sinnt báðum stöðum.Ég held samt að ég myndi reyna að sleppa geðveikinni... eða svona eins og ég gæti.

http://en.wikipedia.org/wiki/George_S._Patton

Bottom line þetta er frábær mynd sem ég mæli eindregið með.