Saturday, January 30, 2010

Youtube, Kvikmyndir og Tónlist Part II

Þegar ég skrifaði færslu seinast um youtube, þá minntist ég á það að kvikmyndin Where The Wild Things Are væri að fara koma út hér á Íslandi 11. desember. Hún var að detta í bíó núna loksins fyrir tveim dögum... Ég er samt sem áður spenntur fyrir að fá að sjá hana þrátt fyrir þessa bið. Djöfull verð ég reiður ef mér finnst hún svo ekkert sérstök.

Hins vegar þá ætla ég að fjalla um nokkra gimsteina (að mínu mati) sem ég er búinn að rekast á á youtube. Kannski er líka vert að minnast á að ég er næstum alveg hættur að horfa á sjónvarp. Það er svo miklu þægilegra að geta ákveðið hvað maður vill horfa á og hvenær með hjálp internetsins.

Ég mæli með að horfa á öll næstu myndbönd í eins góðum gæðum og youtube bíður upp á.

Can't - Alan Lastufka and Tom Milsom

Ég sá þetta myndband fyrst fyrir nokkrum dögum og síðan þá hef ég ekki getað hætt að hugsa um myndbandið né losnað við þessa melódíu! Þetta tónlistarmyndband var gert með photoshop og windows movie maker og er í stop motion! Sem er alveg fáránlegt! Hver í fjandanum hefur þolinmæðina í það? Photoshop? Ég á ekki til orð. Það kemur svo í ljós að sá sem býr yfir þessari þolinmæði er drengur sem er á mínum aldrei og ekki lítið hæfileikaríkur. Myndbandið er í fullkomnu synci við lagið og það eru ófá skot sem mér finnst vera snilld að því leyti. T.d. þegar hún klippir á spottann og þegar það er zoom-að á bílinn. Það er bara svo margt flott við þetta myndband! Skemmir ekki fyrir að mér finnst lagið vera gott og textinn líka. Góð hugmynd sem er framkvæmd frábærlega að mínu mati.



Berndsen - Supertime

Talandi um góðar hugmyndir sem eru framkvæmdar frábærlega... Það er eitthvað við þetta myndband. Ég man þegar ég sá byrjunina fyrst og vissi ekki hvað í fjandanum ég væri að gera að horfa á þetta. Svo komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri snilld. Fáránlegt alveg hreint, fólk sem lendir í bílslysi og þeir fyrstu sem finna það fara bara á eitthvað mega flipp? Góð hugmynd sem er svo ógeðsleg og ögrandi að maður gat ekki annað tjékkað á þessu og sýnt vinum sínum. Ekki slæmt framtak hjá íslenskri hljómsveit og kvikmyndargerðarmönnum sem hafa fengið margar tilnefningar á kvikmyndahátíðum fyrir myndbandið!




Mr. Okra

Þar sem við erum að fara sýna okkar heimildarmyndir á miðvikudaginn fannst mér við hæfi að setja þetta myndband hér inná. Mr. Okra er hreint út sagt einstakur gamall karl. Þessi stutta heimildarmynd er hluti af seríu sem leikstjórinn T.G. Herrington er að gera um stóran hluta menningararfs New Orleans sem er að hverfa með hverjum degi sem líður. Skemmtileg stutt heimildarmynd sem ég hafði mjög gaman af og leysti verk sitt auðveldlega með því að leyfa okkur að kynnast Okra á örfáum mínútum. Mjög skemmtileg myndataka og Mr. Okra er alveg óborganlegur. "I love women like I love my food... And I love my food!". Væri alveg til að spjalla smá við hann. Mann sem er hluti af menningu sem er að hverfa, barn síns tíma. Fann þetta á opinberri youtube síðu Sundance Film Festival þar sem hægt er að skoða fleiri stuttmyndir og margt annað.



The American Akira

Annar ungur kvikmyndagerðarmaður sem er ótrúlega hæfileikaríkur. Harry Partridge teiknar, talar inn á og semur tónlistina fyrir öll þau myndbönd sem hann gerir. Mér fannst þetta myndband ekki vera lítið fyndið þegar ég sá það fyrst þar sem þetta er svo satt! Hollywood er að mestu leyti orðið að stað þar sem að góðar hugmyndir eru teknar og endurgerðar (slátrað) og ef það er ekki raunin, þá er eitthvað tekið sem er 110% skothelt til að vera vinsælt. Stuttu áður en ég sá þetta myndband var ég nefnilega búinn að heyra af því að Leonardo DiCaprio og framleiðslufyrirtækið hans ætluðu að gera "live-action" endurgerð af anime myndinni Akira og staðinn fyrir að gerast í Neo-Tokyo þá gerist hún í Neo-Manhattan. Það verður gaman að sjá hvort að Harry hafi eitthvað rétt fyrir sér um umgjörð myndarinnar. Annað skemmtilegt myndband eftir hann er "Saturday Morning Watchmen" sem er fullt af fyndnum smáatriðum.




Coraline

Ég veit að ég er örugglega búinn að minnast á þessa mynd nokkrum sinnum í blogginu mínu en mér finnst hún bara eiga það skilið. Hún er að mínu mati ein af bestu myndum ársins 2009 og algjör sjónræn veisla. Mér fannst hún vera flottasta myndin sem ég sá í fyrra ásamt auðvitað Avatar. Henry Selick sem leikstýrði The Nightmare Before Christmas á heiðurinn að henni og eins og NBC (he he he) þá er Coraline stop motion mynd. Frábær mynd sem mér fannst mun betri en Up og Up var mjög góð. Ég næ mér ekki yfir það ennþá hvað það er ótrúlega mikið mál að gera svona mynd. Það lætur mig bera enn meiri virðingu fyrir henni. Þessar dúkkur voru svo raunverulegar að ég alveg lifði mig fullkomlega inn í myndina. Hún er líka frekar myrk og creepy sem ég fílaði í botn.



Til að sýna þeim sem lesa þetta líka hversu erfitt var að gera þessa mynd þá má finna örstutt 3 mínútna making of myndband á þessum link. Mæli sterklega með því!

http://www.joblo.com/really-cool-behind-the-scenes-featurette-for-coraline

Held ég segi þetta gott í bili en það er alltaf úr nógu að taka af youtube, ef maður nennir að leita. Líka algjör snilld hvað myndböndin þar eru núna í ótrúlega góðum gæðum, er alls ekki að hata það!

Sunday, January 17, 2010

Bjarnfreðarson og Ragnar Bragason


Það má ætla að næstum hver einasta lifandi sál á þessu landi hafi heyrt um hinar gríðarvinsælu vaktarseríur. Maður getur varla komist lifandi í gegnum einn dag án þess að heyra "SÆLL!" eða "Eigum við að ræða það eitthvað?". Maður veit að maður er kominn með hittara þegar frasar úr sjónvarpsþættinum manns læðast í pop-kúltur landsins.

Sjálfur er ég enginn die hard aðdáandi sem á allar seríurnar eða eitthvað álíka, en ég reyndi ekki að missa úr þætti af Næturvaktinni, datt svo alveg útúr þessu með Dagvaktinni og kom svo aftur inn þegar hin frábæra Fangavakt tók við, fannst Dagvaktin eitthvað svo hæg og alls ekki jafn fyndin og Næturvaktin. En núna eftir viðtalið við Ragnar þá hefur áhugi minn á þeirri seríu vaknað.

Í þáttunum eru frábærar persónur. Allt frá Georgi til Þrastar Hjartar. Alvöru karakterar sem eru vel úthugsaðir, fyndnir og fá að þróast og takast á við misskemmtileg atvik. Var löngu kominn tími til að Ísland fengi almennilegt leikið sjónvarpsefni.

En það sem er rauði þráðurinn í þáttunum eru þessi misskemmtilegu atvik sem eru oftar en ekki bókstaflega óþæginleg að horfa á. Ómannleg heimska og ákvarðanir aðalpersónanna sem koma þeim alltaf í fáránlegar aðstæður. Þetta fær mann til að hlæja og næstum drepast úr vandræðaleika inn á milli. En maður verður bara muna það sem Georg segir: "Þetta er bara einn stór misskilningur!". Sem ég gæti ekki verið meira sammála, oft eru ýmis atvik bara misskilin!

Ég hafði fylgst smá með myndinni á netinu áður, lesið mig til um hvað hún mundi helst einblína á og að hún væri gamandrama. Sá líka trailerinn sem er hreint út sagt frábær.



Samt sem áður fór ég á hana með það helst í huga að hún yrði vandræðaleg og maður yrði alltaf við það að fá nóg af kjánaskapnum í aðalpersónunum. Svo var alls ekki raunin með þessa mynd. Sem betur fer var það einungis af hinu góða. Allar aðalpersónurnar fá það sem næst kemst uppreisn æru og þegar myndin er búin þá eru þeir einhvern veginn einmitt á þeim stað sem þeim hefur verið ætlað allt frá byrjun.

Þetta er ein besta íslenska mynd sem ég hef séð, ásamt Mömmu Gógó og Nóa Albinóa. Það er úr mörgu að taka þegar maður ætlar að hrósa Bjarnfreðarsyni. Það er þó alveg klárt mál frá mínum bæjardyrum séð hvað er það allra besta við hana. Það er leikstjórnin, klippingin og myndatakan sem er alveg geðveik. Þegar ég sá trailerinn var ég í sjokki. Það besta var hvað myndin hefur sinn eigin stíl. Jarð-litirnir, appelsínugulur, dökkgrænn, brúnn o.s.frv. gerðu myndina ótrúlega flotta, og man ég eftir þó nokkrum atriðum þar sem ég gat ekki annað en dást að því hversu falleg sum atriðin voru og hve langt íslensk kvikmyndagerð hefur náð. Mig minnir sérstaklega í eitt atriði þar sem Jón Gnarr situr við ströndina og það er mikið af grænum plöntum í bakgrunni.

Þó að myndin hafi verið að mestu leyti drama þá fannst mér mjög gaman að því þegar það kom tæpur hálftími næstum beint eftir hlé sem var fyndin og vandræðalegur. Ég tel að myndin hefði aldrei náð að jafn miklum vinsældum ef þau atriði hefðu ekki verið jafn skemmtileg og raun ber vitni. Þetta er klárlega mynd sem ég mun kaupa þegar hún kemur út á DVD.


Að fá svo að tala við leikstjórann er náttúrulega snilld. Skemmtilegt að fá að heyra hvað hann var að reyna gera með myndina o.s.frv. Bæði núna og með Jóhannes hef ég mun meiri virðingu fyrir myndinni eftir að hafa fengið að hlusta á og spyrja leikstjórann, get því miður ekki alveg sagt það sama með RWWM (samt sem áður þarf maður hafa smá virðingu fyrir því að nenna taka upp mynd út á sjó!). Skemmtilegast fannst mér að heyra frá Ragnari hvernig hann byrjaði í kvikmyndaiðnaðinum. Á nákvæmlega sama aldri og við, í eins áfanga en í öðrum skóla. Það er ekki spurning um að ég bíði spenntur og með háar væntingar fyrir næsta verkefni Ragnars sama hvort það verður önnur sjónvarpsþáttaröð eins og hann var að tala um eður ei.

Það er öfundsvert að hafa þetta að atvinnu. Að gera kvikmyndir, hver veit nema ég reyni ekki að finna mér einhverja sumarvinnu í íslenska kvikmyndaiðnaðinum? Svo lengi sem það verður ekki búið að leggja hana af. Svo mætti allavega halda miðað við skerðingu á fjárframlögum til þessarar frábæru listgreinar.

Monday, January 4, 2010

Drunken Master Numero Uno


Um daginn fékk ég nokkrar vel valdar myndir lánaðar og var Drunken Master þar á meðal. Góð lýsing á myndinni væri að reyna að telja upp allar helstu klisjur sem einkenna Kung Fu myndir frá Hong Kong, þar með ertu kominn með þessa mynd! Að sjálfsögðu horfði ég á hana ömurlega dubbaða og með texta líka í þokkabót! Sem var mjög skemmtilegt því textinn og talið, þó það væri væntanlega á bæði á ensku var alls ekki í samræmi. Amerískt tal og evrópsk þýðing. Í vissri senu er spurt hvort að Jackie hafi farið í skóla og í talinu segist hann auðvitað hafa gert það, en í textanum segir hann "já, en ekki í langan tíma"(það hafði verið leiðinlegt, eða eitthvað álíka). Mér fannst þetta fyndið því þetta sýnir svo mikið hvernig Kaninn hugsar. Jájá! Mynd um mann sem lemur alla í spað og er oftar en ekki ofurölvi? Ekki málið! En að honum hafi fundist leiðinlegt í skóla? Guð minn góður! Stöðvið pressurnar, eyðið þessu út! Þetta gæti haft slæm áhrif á börnin okkar!

Já, dubbið var svo sannarlega lélegt og einnig leikurinn sem var í flestum tilfellum ekki upp á marga fiska. Húmorinn var líka ansi einfaldur og í því samhengi koma ýmis atriði upp í hugann eins og þegar Jackie leysir vind framan í andlitið á manneskju og letilega hendir henni face first í kúk. Ó hvað ég hefði elskað þessa mynd þegar ég var krakki.

En hvern er ég að plata! Mér finnst þessi mynd vera snilld núna! Þetta er bara svo mikil stemmning. Allir þessir hlutir sem ég taldi upp eru æðislegir. Hún er frábær skemmtun og ég ætla klárlega að horfa á hana aftur með strákunum. Ekta þannig mynd. Það sem er samt augljóslega best við hana eru bardagaatriðin. Jackie Chan er í vægast sagt bat-shit-insane góðu formi í þessari mynd. Choreocraphy-ian er í minnsta lagi jafn góð og gerist nú til dags. Myndatakan er frábær í þeim senum og ekki annað en hægt að elska öll þessi sound effect. Það mætti halda að þeir væru að sparka upp hvirfilvind! Alkóhólista boxið hans Jackie er best og sannar bara enn fremur hversu góður skemmtikraftur maðurinn er. Hann er djöfull fyndinn.

Seinasti bardaginn er bæði í senn flottur og fyndinn. Jang Lee Hwang leikur illmennið Thunderleg (snilldar nafn by the way) er epískur og niðurlægir Jackie fyrst þegar þeir hittast. Eftir að hafa horft á smá aukaefni um myndina komst ég líka að því að hann er sjúkur badass í alvörunni. Með níunda dan í Tae Kwon Do. Hann var einnig í Víetnamstríðinu þar sem hann þjálfaði kóreska hermenn og kenndi þeim bardagalistir. Þar skoraði á hann einhver Víetnami sem var frægur fyrir að vera meistari með hnífa. Jang Lee neitaði og þá réðst maðurinn á hann að aftan frá með þeim afleiðingum að Jang Lee Norris gerði sér lítið fyrir, sneri sér við og roundhouse kickaði hann í andlitið og hann dó samstundis...
SAY WHAT AGAIN MOTHERFUCKER. SAY WHAT AGAIN!

Ég hafði líka gaman af því hvað persónan hans Jackie's er alger fáviti sem maður hefur eiginlega enga samúð með nema undir lokin. Væntanlega er formúlan á þann veg að fyrst er lærlingurinn ærslafullur kjáni sem breytist og verður að lokum yfirvegaðari og betri bardagamaður. En í þessari mynd er hann ærslafullur fáviti sem breytist að lokum og verður jafn mikill fáviti, sem berst við fólk hellaður. (Hann reyndar bjargar pabba sínum sem hafði fyrr í myndinni afneitað honum fyrir að vera fáviti. En ég ætla að segja að það sé sjúklega mikið smáatriði... því það er það.)

Eins og ég sagði áðan þá finnst mér þessi mynd snilld og ætla klárlega að horfa á hana aftur með strákunum. Kannski við tökum Out For Justice með Seagal í leiðinni líka, hver veit? Sá ég ekki líka rétt að við séum að fara horfa á Police Story einhvern miðvikudaginn.? Verður gaman að sjá hvort mér finnst hún betri eða verri...


Hérna er trailerinn fyrir áhugasama:



Ég veit ekki hvort er betra. Að hann sé kallaður Drunken Fairy í trailernum eða atriðið þar sem kona dubbar fyrir hann.

p.s. tónlistin í myndinni er líka alls ekki í verri kantinum!