Sunday, January 17, 2010
Bjarnfreðarson og Ragnar Bragason
Það má ætla að næstum hver einasta lifandi sál á þessu landi hafi heyrt um hinar gríðarvinsælu vaktarseríur. Maður getur varla komist lifandi í gegnum einn dag án þess að heyra "SÆLL!" eða "Eigum við að ræða það eitthvað?". Maður veit að maður er kominn með hittara þegar frasar úr sjónvarpsþættinum manns læðast í pop-kúltur landsins.
Sjálfur er ég enginn die hard aðdáandi sem á allar seríurnar eða eitthvað álíka, en ég reyndi ekki að missa úr þætti af Næturvaktinni, datt svo alveg útúr þessu með Dagvaktinni og kom svo aftur inn þegar hin frábæra Fangavakt tók við, fannst Dagvaktin eitthvað svo hæg og alls ekki jafn fyndin og Næturvaktin. En núna eftir viðtalið við Ragnar þá hefur áhugi minn á þeirri seríu vaknað.
Í þáttunum eru frábærar persónur. Allt frá Georgi til Þrastar Hjartar. Alvöru karakterar sem eru vel úthugsaðir, fyndnir og fá að þróast og takast á við misskemmtileg atvik. Var löngu kominn tími til að Ísland fengi almennilegt leikið sjónvarpsefni.
En það sem er rauði þráðurinn í þáttunum eru þessi misskemmtilegu atvik sem eru oftar en ekki bókstaflega óþæginleg að horfa á. Ómannleg heimska og ákvarðanir aðalpersónanna sem koma þeim alltaf í fáránlegar aðstæður. Þetta fær mann til að hlæja og næstum drepast úr vandræðaleika inn á milli. En maður verður bara muna það sem Georg segir: "Þetta er bara einn stór misskilningur!". Sem ég gæti ekki verið meira sammála, oft eru ýmis atvik bara misskilin!
Ég hafði fylgst smá með myndinni á netinu áður, lesið mig til um hvað hún mundi helst einblína á og að hún væri gamandrama. Sá líka trailerinn sem er hreint út sagt frábær.
Samt sem áður fór ég á hana með það helst í huga að hún yrði vandræðaleg og maður yrði alltaf við það að fá nóg af kjánaskapnum í aðalpersónunum. Svo var alls ekki raunin með þessa mynd. Sem betur fer var það einungis af hinu góða. Allar aðalpersónurnar fá það sem næst kemst uppreisn æru og þegar myndin er búin þá eru þeir einhvern veginn einmitt á þeim stað sem þeim hefur verið ætlað allt frá byrjun.
Þetta er ein besta íslenska mynd sem ég hef séð, ásamt Mömmu Gógó og Nóa Albinóa. Það er úr mörgu að taka þegar maður ætlar að hrósa Bjarnfreðarsyni. Það er þó alveg klárt mál frá mínum bæjardyrum séð hvað er það allra besta við hana. Það er leikstjórnin, klippingin og myndatakan sem er alveg geðveik. Þegar ég sá trailerinn var ég í sjokki. Það besta var hvað myndin hefur sinn eigin stíl. Jarð-litirnir, appelsínugulur, dökkgrænn, brúnn o.s.frv. gerðu myndina ótrúlega flotta, og man ég eftir þó nokkrum atriðum þar sem ég gat ekki annað en dást að því hversu falleg sum atriðin voru og hve langt íslensk kvikmyndagerð hefur náð. Mig minnir sérstaklega í eitt atriði þar sem Jón Gnarr situr við ströndina og það er mikið af grænum plöntum í bakgrunni.
Þó að myndin hafi verið að mestu leyti drama þá fannst mér mjög gaman að því þegar það kom tæpur hálftími næstum beint eftir hlé sem var fyndin og vandræðalegur. Ég tel að myndin hefði aldrei náð að jafn miklum vinsældum ef þau atriði hefðu ekki verið jafn skemmtileg og raun ber vitni. Þetta er klárlega mynd sem ég mun kaupa þegar hún kemur út á DVD.
Að fá svo að tala við leikstjórann er náttúrulega snilld. Skemmtilegt að fá að heyra hvað hann var að reyna gera með myndina o.s.frv. Bæði núna og með Jóhannes hef ég mun meiri virðingu fyrir myndinni eftir að hafa fengið að hlusta á og spyrja leikstjórann, get því miður ekki alveg sagt það sama með RWWM (samt sem áður þarf maður hafa smá virðingu fyrir því að nenna taka upp mynd út á sjó!). Skemmtilegast fannst mér að heyra frá Ragnari hvernig hann byrjaði í kvikmyndaiðnaðinum. Á nákvæmlega sama aldri og við, í eins áfanga en í öðrum skóla. Það er ekki spurning um að ég bíði spenntur og með háar væntingar fyrir næsta verkefni Ragnars sama hvort það verður önnur sjónvarpsþáttaröð eins og hann var að tala um eður ei.
Það er öfundsvert að hafa þetta að atvinnu. Að gera kvikmyndir, hver veit nema ég reyni ekki að finna mér einhverja sumarvinnu í íslenska kvikmyndaiðnaðinum? Svo lengi sem það verður ekki búið að leggja hana af. Svo mætti allavega halda miðað við skerðingu á fjárframlögum til þessarar frábæru listgreinar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Mjög góð færsla.
ReplyDeleteÞað er náttúrulega alltaf skemmtilegra að fá leikstjóra í heimsókn þegar myndin er góð. Mér fannst a.m.k. heimsóknin hans Ragnars heppnast frábærlega.
8 stig.