Tuesday, December 1, 2009

A History Of Unforgiven?


A History of Violence er bara einmitt það! Hræðileg ofbeldissaga. Í stuttu máli þá fjallar þessi mynd um mann sem á sér myrka fortíð, flýr hana og reynir hvað sem hann getur til að verða betri maður og tekst það bara frekar vel, þangað til að fortíðin finnur hann. Þá brýst út hans gamla eðli. Einmitt núna þegar ég skrifa þetta, þá spurði ég mig hvort þetta hljómaði ekki eitthvað kunnuglega?

Svo sannarlega, því ég hefði getað skipt út 'A History of Violence' í byrjun þessarar fyrstu málsgreinar og látið í staðinn 'Unforgiven' og það hefði átt jafn mikið við! Aðalpersónur beggja mynda eiga nærri því án gríns allt sameiginlegt. Þeir eru báðir viðkunnanlegir menn sem lifa mjög hógværu lífi. Það var kona sem gerði það loks að verkum í báðum tilvikum að þeir breyttust og urðu betri menn.

EN þeir eru einnig bandbrjálaðir ofbeldismenn og kaldrifjaðir morðingjar.

Þetta eru myrkar myndir og þegar það líður að lokum þá fær maður að vita að það er ekkert til sem heitir "hamingjusamur endir" ef (gróft) ofbeldi hvort það sé líkamlegt eða andlegt komi við sögu. Ég ákvað að googla þessa tengingu sem ég gerði um líkindi þessara tveggja mynda og þá helst aðalpersónanna og viti menn, þá fann ég ansi góða færslu. (fjallar helst um að gagnrýnendur misstu sig kannski um of að mæra þessa mynd og að hún sé ekki meistaraverk)

http://www.reverseshot.com/legacy/winter06/yearinreview/goi_history.html (hyperlink virkar ekki af einhverjum ástæðum svo ég gafst upp á því)

Ég er sammála þessari færslu að mörgu leyti en samt finnst mér nú að höfundurinn sé kannski um of neikvæður í garð AHoV en hann færir samt sem áður góð rök fyrir máli sínu. Þó að 'A History Of Violence' sé mjög góð mynd þá er hún ekki aaaaalveg jafn góð og 'Unforgiven'. En afhverju finnst mér það?

Það hefur með það að gera hvað skilin milli góðs og ills eru greinilegri í AHoV. Þó að Viggo sé kaldrifjaður morðingi. Þá eru skilin samt alltof mikil á milli hans og persóna Ed Harris og William Hurt sem eru það magnþrungnir sem illmenni að það liggur við að maður grunar þá um mannát á ungbörnum í frítíma sínum. Ef að skilin voru grátt og svart milli góðs og ills í 'Unforgiven' þá eru þau grátt og svarthol í 'A History Of Violence'.

Þetta er kannski minniháttar athugasemd, en samt sem áður þá fannst mér þetta réttlæta ofbeldisverk aðalsöguhetjunnar í myndinni mun meir. Hinsvegar í 'Unforgiven' voru þau alltaf látinn líta út fyrir að vera gersamlega óþarfi. T.d. þegar Eastwood skýtur mann í magann og hann deyr kvalarfullum dauðdaga sem hann á ekki skilið, morðið á Ned, eftirsjá drengsins eftir að hafa drepið mann sem situr á kamarnum og fleiri fleiri dæmi. Í 'AHoV' er þetta einhvern veginn alltof mikið út af illri neyð.

Eins og ég myndi túlka það þá er boðskapur myndanna hinn sami, eini munurinn er sá að hann vex sér ásmeginn og verður alltaf aðeins augljósari með hverju ofbeldisatriði í 'Unforgiven' en í AHoV gerir maður mest grein fyrir því í seinustu senu myndarinnar, þegar Viggo sest við matarborðið og allt hefur breyst og mun aldrei verða samt aftur.

Þessi mynd er samt alls ekki slæm, þvert á móti. Hún er frábær og það besta við hana er hversu trúverðug hún er (og þá meina ég ekki bara ofbeldisatriðin). Þó að plottið sé kannski að ýmsu leyti ótrúlegt þá eru það viðbrögð aðalpersónanna við þessum aðstæðum sem skipta máli, og mér fannst þau vera spot on.

Ofbeldisatriði myndarinnar eru vægast sagt grafísk. Þau eru samt ótrúlega flott og það jaðrar við að ég segi að það megi finna fegurð í öllum innyflunum og garnahenginu. Það hefur samt verið haft eftir Cronenberg að hann vildi á engan hátt sýna ofbeldi sem einhvers konar list í þessari mynd heldur frekar sýna hversu mikill viðbjóður hún er. Það kannski segir meira um mig heldur en leikstjórann hvernig ég túlkaði þetta. Umhverfið er búið að gera mann næstum ónæmann fyrir hrottaskap, fljúgandi líkamshlutum og þess háttar. Einhvern veginn efast ég um að það sé jákvætt.

Ég fýlaði myndatökuna og útlit myndarinnar í botn. Fyrsta sena myndarinnar sem er næstum eitt langt skot er geðveikt og lýsir myndinni frekar vel og lætur mann vita hvað koma skal. Þegar líður á myndinna verður það frekar augljóst að Cronenberg er með fullkomnunaráráttu á háu stigi og að ekkert smá hefur verið pælt í sumum atriðum. Bara það hvernig myndavélin fylgir á eftir leikurunum og hvar hún staðnæmist er oft sérstaklega glæsilegt.

Eitt annað í viðbót sem ég vil minnast á. Það er varla veikan punkt að finna á leikhópnum. Það er samt einn maður sem algerlega stelur senunni. William Hurt. Hann er ekki nema 10 mínútur í myndinni en aldrei hef ég séð neinn nýta sér það stuttan sviðstíma jafn vel. Hann er óþekkjanlegur í þessu hlutverki. Án efa eitt það besta við alla myndina, svipbrigði og talsmáti hans er frábær.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá frammistöðu hans í heild sinni:



Þessi mynd er ekki fyrir viðkvæma, en ég mæli hiklaust með henni fyrir þá sem láta svona lagað ekki á sig fá.

Þeir sem þola ekki svona lagað en eru miklir kvikmynda aðdáendur ættu samt að reyna láta sig hafa það því þetta er virkilega flott og vel gerð kvikmynd sem fær mann til að hugsa.

Kannski gott að minnast á í lokin að þessi mynd minnti mig smá á myndirnar hans Hitchcock (veit ekki alveg afhverju) kannski var það stemmningin, myndatakan eða eitthvað. En ég held að það sé kannski bara út af því að ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að þessi mynd muni eldast mjög vel og fá meira lof með tímanum.

Svo að sjálfsögðu er hún líka byggð á teiknimyndasögu. Ég vildi að ég væri að grínast.