Tuesday, March 16, 2010

The Good Heart



















Mér finnst þessi trailer hreint út sagt hræðilegur! Söguþræði myndarinnar er þröngvað upp á mann svo óþægilega. Hann rembist alltof mikið við að segja manni hvað muni gerast í myndinni og útkoman er leiðinlegur trailer sem gefur áhorfandanum ekki rétta sýn á myndina. (Edit: Kemur mér ekki á óvart að þetta sé einhverjir markaðssetningar dúddar en ekki Dagur sem gerði trailerinn! Leiðinlegt að trailerinn sem hann gerði var ekki notaður... hefði verið gaman að sjá hann)

Nett plakat


Eins og ég minntist stuttlega á í annarri færslu þá finnst mér Nói Albinói vera með betri íslensku myndum sem ég hef séð. Samt sem áður var ég tortrygginn um að The Good Heart yrði eitthvað til að hrópa húrra yfir og er það trailernum helst að þakka! Ég bara fékk ekki þennan Dag Kára 'vibe' sem ég fann fyrir í Nóa Albinóa. Mig grunaði helst að þessi mynd yrði ofur dramatísk, þunglynd, átakanleg og ég veit ekki hvað og hvað, einhver önnur niðurdrepandi orð...

Í myndinni er örstutt atriði sem fór í taugarnar á mér. Beint eftir að Lucas er búinn að gefa nærri því allan peninginn sem hann fékk frá starfsfólki spítalans til fólks sem býr á götunni, þá fáum við að sjá skot þar sem Lucas horfir á kettling sem hann er búinn að annast síðan í byrjun myndar. Það er búið að hengja kettlinginn.

Í fyrsta lagi var það alltof augljóst að kettlingurinn var (lélegt) gervi og fannst mér það vera stílbrot. Í öðru lagi skildi ég ekki alveg hvað var verið að reyna koma á framfæri með þessu skoti. Var það út af því að Lucas gat kannski ekki gefið öllu heimilislausa fólkinu pening og einhver sem fékk ekki aur ákvað að hefna sín? Eða átti þetta að sýna illskuna sem býr í mannfólki, að einhver sé nægilega illur til að myrða varnarlaust heimilisdýr? Eða á þetta að tákna að sakleysi Lucasar muni deyja? Vá ég veit það ekki og þessar "djúpu" pælingar eru orðnar ansi yfirborðskenndar. Ég spyr bara Dag um þetta á morgun. (Edit: Jæja eg var alveg smáá nálægt þessu!)

Fyrir utan þetta eina atriði fýlaði ég The Good Heart í botn að næstum öllu öðru leyti! Sérkennilega andrúmsloftið sem mér finnst ég einungis finna í myndum Dags (hef reyndar ekki séð Voksne Mennesker) er hér til staðar. Afslappað og fyndið á mjög sérstakan hátt þrátt fyrir að viðfangsefnið sé alvarlegt, get ekki lýst þessu betur en það. Ég fékk staðfestingu á þessu um leið og hundurinn gekk inn á mynd í bláum skóhlífum!

Þrátt fyrir að myndin gangi hægt fyrir sig þá leiddist mér aldrei. Þegar það kom hlé var lítið sem ekkert búið að 'gerast' þannig lagað séð. Það var nýbúið að kynna April en annars var lítið annað en uppbyggingu og persónusköpun að finna. Samt sem áður var mér alveg sama, myndin var eitthvað svo áhorfanleg og það verður að teljast hrós.

Eitt það eftirminnilegasta við The Good Heart er sviðsmynd og búningahönnun. Ég fílaði hvað allt var mosagrænt og brúnt, passaði vel við Jacques og Ostrubarinn. Þetta var fullkominn blanda af drungalegu og vinalegu umhverfi.

Klárlega það besta við myndina er leikarahópurinn. Fastagestirnir voru skemmtilegir. Minn uppáhalds var að sjálfsögðu maðurinn sem sat alltaf við hliðina á hundinum og sagði aldrei neitt. Það var bara einum of fyndið. Aðalhlutverkin þrjú voru samt að sjálfsögðu best.

Um Lucas hef ég ekkert sérstakt að segja. Hann er viðkunnanlegur drengur með hjartað á réttum stað nærri því alla myndina (hohoho). Hann var bara eitthvað svo afspyrnu venjulegur að ég bar engar sérstakar tilfinningar til hans. Samt sem áður leikur Paul Dano mjög vel og að mínu mati fannst mér það passa vel fyrir myndina að hann væri svona 'venjulegur' og að ég bæri ekkert svona sterkar tilfinningar til hans.

Jacques er hinsvegar algjör dóni og að flestu leyti ömurlegur gaur til að byrja með. Ég veit samt ekki afhverju en ég kunni vel við hann alveg frá byrjun. Hann er fyndinn, ákveðinn og geðillur og hefur ekki sérlega mikla þolinmæði fyrir öðru fólki. Hrein unun að fá að sjá persónu hans breytast í gegnum myndina.

Ég HATAÐI April frá því hún labbaði inn um dyrnar á Ostrubarnum. Það var eitthvað við hana og hvernig hún nýtti sér þennan góðhjartaða dreng. Reyndar mætti segja að Jacques væri að gera slíkt hið sama en hann kom Lucas allavega af götunni. Hún pirraði mig ótrúlega allt þangað til að Jacques sagði að honum fyndist hún vera ekkert alltof slæm. Þá fattaði ég hvað hún var lík honum og mér fannst það líklegt að hún myndi taka við barnum. Hún væri sú eina sem gæti rekið hann eins og Jacques!

Annað skemmtilegt við myndina voru útúrdúrarnir. Til dæmis þegar Jacques hittir gullfallegu eiginkonu kommatittsins og getur ekki látið hana vera, umræðurnar um hvernig holdgerving viðreksturs myndi líta út og hin ógurlega hræsni sem felst í búddatrú. Þetta eru allt atriði sem vel hefði mátt sleppa en þau gerðu myndina eftirminnilegri og betri fyrir vikið.

Ég get ímyndað mér að það sé óragrúi af myndmáli og táknum og þar fram eftir götum í þessari mynd. Að Lucas sé tákngerving fyrir það hreina og óspillta sem erfitt er að finna í samfélaginu í dag sem er mengað af vafasömum lifnaðarhætti okkar eða eitthvað álíka skemmtilegt. En einmitt núna nenni ég ekki að sökkva mér í þannig pælingar. Dagur verður bara að sitja fyrir svörum!

The Good Heart er yndisleg mynd. Trailerinn var hræðilegur en það kom ekki að sök því ég var í staðinn glaðari þegar ég komst að því að myndin var ekki eins og ég hafði ímyndað mér. Hún var mun betri. Þrátt fyrir kannski frekar fyrirsjáanlegan endi þá skemmdi það ekki fyrir að mínu mati. Hann var svo vel útfærður að seinustu tíu til fimmtán mínúturnar eru umdeilanlega það besta við myndina.

Edit: Ég talaði við Halldór Kristján eftir heimsóknina og hann minntist á eitt sem ég þarf að vera fullkomlega sammála. Eftir að við fengum Dag í heimsókn fannst mér myndin ekkert mun betri eins og mér fannst eftir að við vorum búinn að tala við Ragnar og Þorstein Gunnar um þeirra myndir. Maður spyr sig hvort það sé góður eða slæmur hlutur og mér finnst það vera góður. Því það gefur til kynna að það sem leikstjórinn vildi að kæmist skila gerði það mjög vel og því þarf ekkert að útskýra það í einhverju einkaspjalli. Einnig er mikið af myndinni opið fyrir túlkun og Dagur leyfir manni að nota ímyndunaraflið. Maður er eiginlega orðin of fastur í því að láta mata sig með upplýsingum og fá útskýringu á öllu sem kom fram og öllu því sem kom ekki fram.

Saturday, March 13, 2010

Draumalandið

Þegar maður tæklar stóra umræðu sem allir ættu að hafa áhuga á, hvernig ætti maður eiginlega að gera það? Áhorfandinn ætti að geta horft á mynd og tekið ákvörðun byggða á rökum en ekki lýðskrumi. Rökrétta ákvörðun sem áhorfandinn velur út frá sinni eigin sannfæringu eftir að hafa heyrt vitnisburð beggja hliða.

Einhliða umræða og rógburður er alltaf óþarfi. Staðreyndir tala ávallt sínu máli sama hvað og ef maður er fullviss um réttmæti sinnar sannfæringar, þá er maður ekki hræddur við að gefa andstæðingnum færi á að útskýra sína hlið. Því sá sem hefur staðreyndirnar með sér í liði er betur að vopnum búinn þegar það kemur að málefnalegri umræðu.

Einhliða umræða er oftar en ekki blindur áróður. Áróður getur verið bæði góður og slæmur, góður áróður getur t.d. verið hvatning til heilsusamara lífernis og við ættum öll að kannast við dæmi um slæman áróður. Þá eru bara tvær spurningar sem þarf að svara. Er Draumalandið áróður? Ef svo, er hún góður áróður eða ekki?

Þetta eru spurningar sem maður verður að gera upp við sjálfan sig. Mitt mat er að Draumalandið verður að flokkast sem áróður. Hinsvegar var ég sammála mörgu ef ekki flestu í myndinni en auðvitað fékk ég bara að sjá eina hlið á málinu, sem var þó listavel komið á framfæri. En mín skoðun er sú að einhliða umræða er verri en að fá að sjá báðar hliðar peningsins. Öll erum við samt ólík og eflaust einhverjir ósammála mér en það verður bara að hafa það.

Draumalandið er gullfalleg mynd og landslagsskotin eru alveg geðveik. Þorfinnur Guðnason og Andri Snær Magnason eiga hrós skilið fyrir þessa merkilegu mynd. Það er augljóst að mínu mati að Andri Snær sé einn af áhrifamestu rithöfundum landsins í dag. Ég hef ekki lesið bókina en þyrfti að fara flýta mér að gera það.

Það sem ég tel að kvikmyndagerðarmennirnir voru að reyna með þessari mynd var að vekja íslensku þjóðina og reyna að fá hana til þess að sjá hvað er að gerast í kringum hana. Á þann hátt virkar hún vel. Maður þarf að vera alvarlega tómur í kúpunni til að hugsa ekki smá um sig og sína þjóð eftir að hafa séð þessa mynd.

Ég verð líka að segja að mér fannst allt sem hægt er að flokka undir "production values" í þessari mynd vera til fyrirmyndar og sýna hversu vel gerðar myndir við Íslendingar getum gefið frá okkur ef við fáum tækifæri til þess. Ég átti einmitt í hörðum viðræðum við vin minn um daginn um það hvort ríkið ætti að styðja við kvikmyndagerð á Íslandi eða ekki. Þessi vinur minn er gríðarlegur frjálshyggjumaður og það var mjög áhugavert að tala við hann um framtíð íslenskra kvikmynda. Eins og ætti að vera augljóst þá vorum við hjartanlega ósammála um hvernig hún ætti að vera. Að mínu mati er það skylda ríkisins að styðja við þennan rekstur.En aftur að myndinni. Þegar ég horfði á hana átti hún alla mína athygli. Myndin er vel sett upp og það eru margir skemmtilegir viðmælendur í henni. Hún fræddi mig um marga hluti sem ég hafði hreinlega gleymt eða verið alltof ungur til að skilja og/eða nenna að pæla í. Það verður að teljast jákvætt.

Mér leið hreint út sagt asnalega að sjá gamlar klippur af stjórnmálamönnum sem manni finnst núna að vera gera sig að algerum fíflum. Hryllilegt sérstaklega þegar talað var við fyrrverandi bæjarstjórann sem vinnur núna hjá Alcoa! Það var alveg frekar slæmt.

Það var samt eitt sem fór í taugarnar á mér og það var þessi eini gamli karl sem var hafður í myndinni og talaði gegn málstaði myndarinnar. Eins og ég sagði áðan þá finnst mér betra þegar báðar hliðar fá að koma sínu sjónarmiði til skila. En þessi gamli maður fékk það ekkert. Allar senur með honum voru einhvers konar einnar setningar atriði þar sem hann sagði eitthvað álíka og "Ef náttúran breytir landinu þá má maðurinn alveg líka breyta því!" og eitthvað fleira í þeim dúr. Hann fékk ekki að koma sínu sjónarmiði til skila á rökvísan hátt heldur var hann einungis notaður í þeim tilgangi að láta sitt sjónarmið líta út fyrir að vera asnalegt og til að láta málstað andstæðinga sinna líta betur út. Þetta féll ekki í góðan jarðveg hjá mér og ef maður ætlar að hafa eitthvað svona, þá annað hvort gerir maður það vel eða maður sleppir því alveg að mínu mati.

En þó það megi finna minniháttar galla á þessari mynd þá stendur hún uppi sem falleg, vel gerð og mikilvæg mynd sem allir Íslendingar ættu að sjá sama hver skoðun þeirra á virkjunum og álverum er. Hér er um að ræða mynd sem ekki bara leyfir manni að vera þáttakandi í lifandi umræðu sem á sér stað einmitt núna heldur vill hún það innilega.

Lokaniðurstaða: Þó að ég sé ekki að hrifinn af einhliða umræðu þá er þessi mynd meira en þess virði að sjá.

Hérna er að finna mjög jákvæðan dóm um Draumalandið. Þar sem segir meðal annars:

"There is one reason, above all the others, that the Academy Awards are not worth paying any attention to this year: the documentary Dreamland is not up for best picture, best documentary, or best anything."

Myndin er að fá mjög góðar viðtökur bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum og er að standa sig vel á erlendum kvikmyndahátíðum þannig það verður gaman að sjá hversu mikla útbreiðslu hún fær að lokum. Allaf gaman þegar íslenskum kvikmyndum gengur vel!

Tuesday, March 9, 2010

Edward Wood og Plan 9 From Outer Space!


Flestir sem hafa einhvern áhuga á kvikmyndum ættu kannast við nafnið Edward D. Wood Jr. Manninn sem er alræmdur fyrir að vera versti leikstjóri allra tíma. En eins og með marga aðra listamenn þá varð hann ekki frægur fyrr en hann var fallinn frá og náði sú frægð hápunkti þegar Tim Burton ákvað að gera kvikmynd um líf hans. Eflaust er það kaldhæðni örlaganna að sú mynd (Ed Wood) er talinn vera gífurlega góð kvikmynd og vann m.a. til tveggja óskarsverðlauna. Eftir að hafa séð Plan 9 From Outer Space þá hef ég ákveðið að horfa á hana sem fyrst.

Ég er búinn að vera lesa mér til um Edward Wood á netinu og það verður það að segjast að hann hafi verið vægt til orða tekið skrautlegur karakter. Hræðilegur framleiðandi, handritshöfundur og leikstjóri sem var þeim eiginleikum gæddur að vera ofurmannlega bjartsýnn og að hafa óbilandi sjálfstraust á öllu því sem hann tók sér fyrir hendur (líkti sér oft við hetjuna sína Orson Welles). Ef þú svo bætir ofan á þetta að hann hafi verið landgönguliði í seinni heimsstyrjöldinni, alkóhólisti, klæðskiptingur og með einkennilegt blæti fyrir angóra peysum þá er maður kominn með einn spes náunga.

Þegar ég hugsa um þennan mann kemur mér strax upp í hugann ein manneskja sem mér finnst vera hliðstæða hans að mörgu leyti. Bírtingur, því sama þótt að vindáttinn sé óhagstæð hjá þessum tveimur mönnum þá er alltaf horft á björtu hliðarnar í lífinu og reynt að gera það besta úr hlutunum og það blés alltaf á móti. Guð má vita að Ed Wood elskaði að gera kvikmyndir, því miður var hann bara ekkert sérlega góður í því. En það er bara eins og þeir segja: Maður á alltaf að rækta garðinn sinn, og það var það sem hann gerði. Mér finnst það vera minnisvarði um hveru sérstakur þessi maður var að nærtækasta dæmið sem ég fann var einhver svo fáránlegur að hann er ekki til í raunveruleikanum.Plan 9 From Outer Space er ein fyndin mynd, í svona hálftíma... en eftir það fannst mér hún vera algjör hryllingur og ekki sú gerð af hryllingi sem hún reynir að fiska eftir. Þetta var reyndar seint um kvöld og maður var orðinn smá þreyttur og kannski ekki nægilega vel á varðbergi fyrir hversu "fyndin" myndin var eftir þennan fyrsta hálftíma...

Hinsvegar er eitt sem ég veit og það er að söguþráðurinn í þessari mynd hlýtur að vera sá versti sem ég hef séð, Top Secret meikar meira sens! "Can your heart stand the shocking facts of grave robbers from outer space?" Bíddu leyfðu mér að hugsa, já ég held það bara. Það er ekkert hræðilegt við það. Ó nei! Það eru geimverur eru að stela dauðu fólki! (og lífga það við!) :O

Frá þessu sprettur væntanlega spurningin. Afhverju í fjandanum eru geimverur að grafa upp dautt fólk og lífga það við? Mig minnir að það hafi eitthvað með það að gera að maðurinn væri að vera búinn að búa til vél sem gæti nýtt sér orku sólarinnar og þá myndi sólin springa og þá myndi fara af stað keðjuverkum og allar sólir myndu springa og þess vegna er það eina rökrétta í stöðunni að endurlífga Bela Lugosi við sem vampíru (afhverju í helvítinu endurlífgast hann í vampírubúning?!?) og láta hann halda uppi skykkju sem hylur allt andlitið hans því þetta er ekkert fokking Bela Lugosi nema í svona 2 mínútur því hann fokking dó og þetta er bara einhver gamall kall sem var kírópraktor og leit út eins og Bela Lugosi ef það sást ekkert í andlitið á honum... SHIT HVAÐ ÞETTA ER ÖMURLEG MYND. AFHVERJU ERU VAMPÍRUR Í ÞESSARI MYND! Þetta er svo asnalegt! Þetta er eins og ég væri að gera rómantíska gamanmynd og myndi svo segja:

Ég veit hvað vantar í þessa mynd. Það vantar fleiri ruslakalla, já ég held ég ætli að hafa svona ruslakalla montage rétt um miðbik myndarinnar! Djöfull verður það tryllt. Það mun gera myndina svona fimmfalt betri. Ég er bestasti og sniðugasti maðurinn í bransanum. Húrra fyrir mér!



Ég s.s. datt út þegar aðalpersónurnar voru komnar inn í geimskipið og voru að ræða örlög alheimsins við geimverurnar í einhverju leiðinlegasta samtali sem hefur verið fest á filmu, ever. Næst þegar ég verð andvaka þá ætla ég bara að hugsa um það atriði.

Því verður samt ekki neitað að þessi mynd var drullufyndinn til að byrja með. Fljúgandi furðuhlutir þar sem maður sá greinilega spottana haldandi þeim uppi. Sviðsmyndirnar voru fáránlegar, sérstaklega stjórnklefinn í flugvélinni og þegar hershöfðinginn átti að standa í miðri eyðimörk en hann stóð í staðinn fyrir aftan vegg. Bara allt í góðu flippi. En þetta er líka einungis byrjunin, það er hægt að týna til svo mörg léleg atriði að það er ekki fyndið. Í alvörunni. Það hætti að vera fyndið þegar leið á myndina.

Það var reyndar eitt sem var vel gert. Tæknilega séð er það reyndar ekki vel gert en samt sem áður og það eru archive skotin sem Ed Wood notar. En þau eru svona tífalt betri en öll önnur skot notuð í myndinni og Wood notar þau óspart. Fyrst hélt ég að maðurinn hefði kannski örlitla hæfileika en þegar það fór að líða á myndina var það svo augljóst að það var sársaukafullt að þessi atriði ættu ekkert skylt við Ed Wood.

Fáránleg mynd, fáránlegur maður, vafasöm skemmtun.

Hérna er fyrsta atriðið úr myndinni fyrir áhugasama:



"If you want to know me, see 'Glen or Glenda'. That's me, that's my story, no question. But 'Plan 9' is my pride and joy."
-Ed Wood