Saturday, March 13, 2010

Draumalandið

Þegar maður tæklar stóra umræðu sem allir ættu að hafa áhuga á, hvernig ætti maður eiginlega að gera það? Áhorfandinn ætti að geta horft á mynd og tekið ákvörðun byggða á rökum en ekki lýðskrumi. Rökrétta ákvörðun sem áhorfandinn velur út frá sinni eigin sannfæringu eftir að hafa heyrt vitnisburð beggja hliða.

Einhliða umræða og rógburður er alltaf óþarfi. Staðreyndir tala ávallt sínu máli sama hvað og ef maður er fullviss um réttmæti sinnar sannfæringar, þá er maður ekki hræddur við að gefa andstæðingnum færi á að útskýra sína hlið. Því sá sem hefur staðreyndirnar með sér í liði er betur að vopnum búinn þegar það kemur að málefnalegri umræðu.

Einhliða umræða er oftar en ekki blindur áróður. Áróður getur verið bæði góður og slæmur, góður áróður getur t.d. verið hvatning til heilsusamara lífernis og við ættum öll að kannast við dæmi um slæman áróður. Þá eru bara tvær spurningar sem þarf að svara. Er Draumalandið áróður? Ef svo, er hún góður áróður eða ekki?

Þetta eru spurningar sem maður verður að gera upp við sjálfan sig. Mitt mat er að Draumalandið verður að flokkast sem áróður. Hinsvegar var ég sammála mörgu ef ekki flestu í myndinni en auðvitað fékk ég bara að sjá eina hlið á málinu, sem var þó listavel komið á framfæri. En mín skoðun er sú að einhliða umræða er verri en að fá að sjá báðar hliðar peningsins. Öll erum við samt ólík og eflaust einhverjir ósammála mér en það verður bara að hafa það.

Draumalandið er gullfalleg mynd og landslagsskotin eru alveg geðveik. Þorfinnur Guðnason og Andri Snær Magnason eiga hrós skilið fyrir þessa merkilegu mynd. Það er augljóst að mínu mati að Andri Snær sé einn af áhrifamestu rithöfundum landsins í dag. Ég hef ekki lesið bókina en þyrfti að fara flýta mér að gera það.

Það sem ég tel að kvikmyndagerðarmennirnir voru að reyna með þessari mynd var að vekja íslensku þjóðina og reyna að fá hana til þess að sjá hvað er að gerast í kringum hana. Á þann hátt virkar hún vel. Maður þarf að vera alvarlega tómur í kúpunni til að hugsa ekki smá um sig og sína þjóð eftir að hafa séð þessa mynd.

Ég verð líka að segja að mér fannst allt sem hægt er að flokka undir "production values" í þessari mynd vera til fyrirmyndar og sýna hversu vel gerðar myndir við Íslendingar getum gefið frá okkur ef við fáum tækifæri til þess. Ég átti einmitt í hörðum viðræðum við vin minn um daginn um það hvort ríkið ætti að styðja við kvikmyndagerð á Íslandi eða ekki. Þessi vinur minn er gríðarlegur frjálshyggjumaður og það var mjög áhugavert að tala við hann um framtíð íslenskra kvikmynda. Eins og ætti að vera augljóst þá vorum við hjartanlega ósammála um hvernig hún ætti að vera. Að mínu mati er það skylda ríkisins að styðja við þennan rekstur.En aftur að myndinni. Þegar ég horfði á hana átti hún alla mína athygli. Myndin er vel sett upp og það eru margir skemmtilegir viðmælendur í henni. Hún fræddi mig um marga hluti sem ég hafði hreinlega gleymt eða verið alltof ungur til að skilja og/eða nenna að pæla í. Það verður að teljast jákvætt.

Mér leið hreint út sagt asnalega að sjá gamlar klippur af stjórnmálamönnum sem manni finnst núna að vera gera sig að algerum fíflum. Hryllilegt sérstaklega þegar talað var við fyrrverandi bæjarstjórann sem vinnur núna hjá Alcoa! Það var alveg frekar slæmt.

Það var samt eitt sem fór í taugarnar á mér og það var þessi eini gamli karl sem var hafður í myndinni og talaði gegn málstaði myndarinnar. Eins og ég sagði áðan þá finnst mér betra þegar báðar hliðar fá að koma sínu sjónarmiði til skila. En þessi gamli maður fékk það ekkert. Allar senur með honum voru einhvers konar einnar setningar atriði þar sem hann sagði eitthvað álíka og "Ef náttúran breytir landinu þá má maðurinn alveg líka breyta því!" og eitthvað fleira í þeim dúr. Hann fékk ekki að koma sínu sjónarmiði til skila á rökvísan hátt heldur var hann einungis notaður í þeim tilgangi að láta sitt sjónarmið líta út fyrir að vera asnalegt og til að láta málstað andstæðinga sinna líta betur út. Þetta féll ekki í góðan jarðveg hjá mér og ef maður ætlar að hafa eitthvað svona, þá annað hvort gerir maður það vel eða maður sleppir því alveg að mínu mati.

En þó það megi finna minniháttar galla á þessari mynd þá stendur hún uppi sem falleg, vel gerð og mikilvæg mynd sem allir Íslendingar ættu að sjá sama hver skoðun þeirra á virkjunum og álverum er. Hér er um að ræða mynd sem ekki bara leyfir manni að vera þáttakandi í lifandi umræðu sem á sér stað einmitt núna heldur vill hún það innilega.

Lokaniðurstaða: Þó að ég sé ekki að hrifinn af einhliða umræðu þá er þessi mynd meira en þess virði að sjá.

Hérna er að finna mjög jákvæðan dóm um Draumalandið. Þar sem segir meðal annars:

"There is one reason, above all the others, that the Academy Awards are not worth paying any attention to this year: the documentary Dreamland is not up for best picture, best documentary, or best anything."

Myndin er að fá mjög góðar viðtökur bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum og er að standa sig vel á erlendum kvikmyndahátíðum þannig það verður gaman að sjá hversu mikla útbreiðslu hún fær að lokum. Allaf gaman þegar íslenskum kvikmyndum gengur vel!

3 comments:

  1. Ég gat bara horft á smá af þessari mynd, hætti rétt eftir að þeir sýndu hvernig eitt stórfyrirtæki í tengsl við virkjanir hafði orsakað slys á Indlandi og þeir sýndu þá langt brot af krökkum í kvölum. "Viljum við að þetta gerist á Íslandi?!?!".

    Annars er ég ekki neinn úber frjálshyggjumaður né hef sterkar skoðanir á þungaiðnað á Íslandi. Mér fannst bara myndin lýsa öllu með vafasömum hætti og því ekki þess virði að eyða tíma í hana til þess að fræðast um þetta mál.

    ReplyDelete
  2. Já það mætti segja það að þetta skaði myndina frekar mikið. Ég heyrði samt að bókin sé mun betur upp sett og fari bæði yfir með og mót rök og það gladdi mig að heyra það. Það er doldið gamble að ætla sér að gera heila mynd og útskýra einungis hluta af umræðunni.

    ReplyDelete
  3. Þetta er klárlega áróðursmynd. Margt í henni er mjög vel gert, en margt er líka fyrir neðan beltisstað. Senan þar sem flæðir yfir hreiðrið í lokin er eiginlega einum of, en virkar vissulega ofboðslega vel. Lokaskotið þar sem hreindýrin flýja undan þyrlu myndatökumannsins fannst mér hins vegar hræðilegt...

    Hvað gamla karlinn (Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóra) varðar, þá held ég að það þurfi engar brellur til þess að gera hann og hans skoðanir fáránlegar. Maðurinn hefur þá yfirlýstu skoðun að það sé siðferðileg skylda Íslendinga að virkja hverja einustu sprænu, því vatnsaflið sé svo miklu betra en það sem notað er annars staðar.

    Og ég myndi frekar vilja sjá ríkið styrkja kvikmyndagerð á Íslandi en byggja stíflur. Megininntak í röksemdafærslu kvikmyndagerðarmanna er að það er vanmetið hversu mörg störf skapast og hversu mikill erlendur gjaldeyrir fæst í gegnum kvikmyndagerðina. Gleymum því ekki að til þess að Hollywood geti tekið upp myndir eða hluta úr myndum á Íslandi (og eytt ógrynni af dollurum) þá þarf að vera til staðar kvikmyndaiðnaður á Íslandi...

    Mjög góð færsla. 9 stig.

    ReplyDelete