Tuesday, March 16, 2010

The Good Heart



















Mér finnst þessi trailer hreint út sagt hræðilegur! Söguþræði myndarinnar er þröngvað upp á mann svo óþægilega. Hann rembist alltof mikið við að segja manni hvað muni gerast í myndinni og útkoman er leiðinlegur trailer sem gefur áhorfandanum ekki rétta sýn á myndina. (Edit: Kemur mér ekki á óvart að þetta sé einhverjir markaðssetningar dúddar en ekki Dagur sem gerði trailerinn! Leiðinlegt að trailerinn sem hann gerði var ekki notaður... hefði verið gaman að sjá hann)

Nett plakat


Eins og ég minntist stuttlega á í annarri færslu þá finnst mér Nói Albinói vera með betri íslensku myndum sem ég hef séð. Samt sem áður var ég tortrygginn um að The Good Heart yrði eitthvað til að hrópa húrra yfir og er það trailernum helst að þakka! Ég bara fékk ekki þennan Dag Kára 'vibe' sem ég fann fyrir í Nóa Albinóa. Mig grunaði helst að þessi mynd yrði ofur dramatísk, þunglynd, átakanleg og ég veit ekki hvað og hvað, einhver önnur niðurdrepandi orð...

Í myndinni er örstutt atriði sem fór í taugarnar á mér. Beint eftir að Lucas er búinn að gefa nærri því allan peninginn sem hann fékk frá starfsfólki spítalans til fólks sem býr á götunni, þá fáum við að sjá skot þar sem Lucas horfir á kettling sem hann er búinn að annast síðan í byrjun myndar. Það er búið að hengja kettlinginn.

Í fyrsta lagi var það alltof augljóst að kettlingurinn var (lélegt) gervi og fannst mér það vera stílbrot. Í öðru lagi skildi ég ekki alveg hvað var verið að reyna koma á framfæri með þessu skoti. Var það út af því að Lucas gat kannski ekki gefið öllu heimilislausa fólkinu pening og einhver sem fékk ekki aur ákvað að hefna sín? Eða átti þetta að sýna illskuna sem býr í mannfólki, að einhver sé nægilega illur til að myrða varnarlaust heimilisdýr? Eða á þetta að tákna að sakleysi Lucasar muni deyja? Vá ég veit það ekki og þessar "djúpu" pælingar eru orðnar ansi yfirborðskenndar. Ég spyr bara Dag um þetta á morgun. (Edit: Jæja eg var alveg smáá nálægt þessu!)

Fyrir utan þetta eina atriði fýlaði ég The Good Heart í botn að næstum öllu öðru leyti! Sérkennilega andrúmsloftið sem mér finnst ég einungis finna í myndum Dags (hef reyndar ekki séð Voksne Mennesker) er hér til staðar. Afslappað og fyndið á mjög sérstakan hátt þrátt fyrir að viðfangsefnið sé alvarlegt, get ekki lýst þessu betur en það. Ég fékk staðfestingu á þessu um leið og hundurinn gekk inn á mynd í bláum skóhlífum!

Þrátt fyrir að myndin gangi hægt fyrir sig þá leiddist mér aldrei. Þegar það kom hlé var lítið sem ekkert búið að 'gerast' þannig lagað séð. Það var nýbúið að kynna April en annars var lítið annað en uppbyggingu og persónusköpun að finna. Samt sem áður var mér alveg sama, myndin var eitthvað svo áhorfanleg og það verður að teljast hrós.

Eitt það eftirminnilegasta við The Good Heart er sviðsmynd og búningahönnun. Ég fílaði hvað allt var mosagrænt og brúnt, passaði vel við Jacques og Ostrubarinn. Þetta var fullkominn blanda af drungalegu og vinalegu umhverfi.

Klárlega það besta við myndina er leikarahópurinn. Fastagestirnir voru skemmtilegir. Minn uppáhalds var að sjálfsögðu maðurinn sem sat alltaf við hliðina á hundinum og sagði aldrei neitt. Það var bara einum of fyndið. Aðalhlutverkin þrjú voru samt að sjálfsögðu best.

Um Lucas hef ég ekkert sérstakt að segja. Hann er viðkunnanlegur drengur með hjartað á réttum stað nærri því alla myndina (hohoho). Hann var bara eitthvað svo afspyrnu venjulegur að ég bar engar sérstakar tilfinningar til hans. Samt sem áður leikur Paul Dano mjög vel og að mínu mati fannst mér það passa vel fyrir myndina að hann væri svona 'venjulegur' og að ég bæri ekkert svona sterkar tilfinningar til hans.

Jacques er hinsvegar algjör dóni og að flestu leyti ömurlegur gaur til að byrja með. Ég veit samt ekki afhverju en ég kunni vel við hann alveg frá byrjun. Hann er fyndinn, ákveðinn og geðillur og hefur ekki sérlega mikla þolinmæði fyrir öðru fólki. Hrein unun að fá að sjá persónu hans breytast í gegnum myndina.

Ég HATAÐI April frá því hún labbaði inn um dyrnar á Ostrubarnum. Það var eitthvað við hana og hvernig hún nýtti sér þennan góðhjartaða dreng. Reyndar mætti segja að Jacques væri að gera slíkt hið sama en hann kom Lucas allavega af götunni. Hún pirraði mig ótrúlega allt þangað til að Jacques sagði að honum fyndist hún vera ekkert alltof slæm. Þá fattaði ég hvað hún var lík honum og mér fannst það líklegt að hún myndi taka við barnum. Hún væri sú eina sem gæti rekið hann eins og Jacques!

Annað skemmtilegt við myndina voru útúrdúrarnir. Til dæmis þegar Jacques hittir gullfallegu eiginkonu kommatittsins og getur ekki látið hana vera, umræðurnar um hvernig holdgerving viðreksturs myndi líta út og hin ógurlega hræsni sem felst í búddatrú. Þetta eru allt atriði sem vel hefði mátt sleppa en þau gerðu myndina eftirminnilegri og betri fyrir vikið.

Ég get ímyndað mér að það sé óragrúi af myndmáli og táknum og þar fram eftir götum í þessari mynd. Að Lucas sé tákngerving fyrir það hreina og óspillta sem erfitt er að finna í samfélaginu í dag sem er mengað af vafasömum lifnaðarhætti okkar eða eitthvað álíka skemmtilegt. En einmitt núna nenni ég ekki að sökkva mér í þannig pælingar. Dagur verður bara að sitja fyrir svörum!

The Good Heart er yndisleg mynd. Trailerinn var hræðilegur en það kom ekki að sök því ég var í staðinn glaðari þegar ég komst að því að myndin var ekki eins og ég hafði ímyndað mér. Hún var mun betri. Þrátt fyrir kannski frekar fyrirsjáanlegan endi þá skemmdi það ekki fyrir að mínu mati. Hann var svo vel útfærður að seinustu tíu til fimmtán mínúturnar eru umdeilanlega það besta við myndina.

Edit: Ég talaði við Halldór Kristján eftir heimsóknina og hann minntist á eitt sem ég þarf að vera fullkomlega sammála. Eftir að við fengum Dag í heimsókn fannst mér myndin ekkert mun betri eins og mér fannst eftir að við vorum búinn að tala við Ragnar og Þorstein Gunnar um þeirra myndir. Maður spyr sig hvort það sé góður eða slæmur hlutur og mér finnst það vera góður. Því það gefur til kynna að það sem leikstjórinn vildi að kæmist skila gerði það mjög vel og því þarf ekkert að útskýra það í einhverju einkaspjalli. Einnig er mikið af myndinni opið fyrir túlkun og Dagur leyfir manni að nota ímyndunaraflið. Maður er eiginlega orðin of fastur í því að láta mata sig með upplýsingum og fá útskýringu á öllu sem kom fram og öllu því sem kom ekki fram.

2 comments:

  1. Mjög góð færsla. 9 stig.

    Ég er hjartanlega sammála með trailerinn. Það er einfaldlega ekki hægt að beita sömu aðferðum við gerð sýnihorns fyrir mynd eins og Good Heart og fyrir einhverjar Hollywood hasarmyndir. Í The Good Heart er stemningin mikilvægari en plottið, þess vegna ætti trailerinn að reyna að koma stemningunni til skila, ekki plottinu...

    ReplyDelete
  2. Ein athugasemd varðandi öll þessi embedduðu vídjó. Þau eru langflest of breið fyrir bloggið, og hluti þeirra sést ekki séu þau spiluð beint. Þetta má leysa á tvenna vegu. Annars vegar er hægt að breyta breiddinni á vídjóinu um leið og þú embeddar það. Hins vegar er hægt að breyta dálkabreiddinni á blogginu.

    ReplyDelete