Friday, February 26, 2010

Patton


Um daginn horfði ég á óskarsverðlauna myndina Patton frá árinu 1970. Hún fer rétt með sögulegar heimildir og setur þær fram fullkomlega. Mér fannst hún vera góð þegar ég horfði á hana en ekkert endilega frábær. En svo liðu dagarnir og einhvern veginn gat ég ekki losnað við þessa mynd úr hausnum á mér. Nú er ég á því að hún sé með betri myndum sem ég hef séð. Hún fékk mig til að hugsa, ekki bara um hversu góð hún væri. Heldur um sjálfan mig og annað fólk.

Það er mér ljóst að til að ná langt í lífinu þá verður maður að vera ákveðinn og hafa trú á sjálfum sér. Ef þú tekur ekki mark á sjálfum þér, afhverju ætti einhver annar að gera það? Það er lykilatriði fyrir alla í stjórnunarstöðum að hafa mikið sjálfstraust til að ná sem bestum árangri.

Það er enginn tilviljun að stærstu leikstjórar í heimi eru nærri því allir að springa úr sjálfumgleði og mikilmennsku. Menn eins og Michael Bay, Steven Spielberg, James Cameron fá ekki nóg af sjálfum sér og ég gæti haldið áfram að telja upp leikstjóra allt út í óendanleikann.
Kvikmyndaformið er nefnilega svo stórt batterí. Þetta er listform sem er hópíþrótt eins og Ragnar Bragason sagði. Allt frá handritaskrifum, myndatöku, lýsingu, hljóði og að lokum til klippingunar á seinasta skoti myndarinnar. Það koma svo margir að þessu ferli! En eitt finnst mér vanta við það sem Ragnar sagði, og það er að í svona hópíþrótt þarf kláran leiðtoga.

Svo ef leikstjórinn gefur eftir einhvers staðar og fylgir ekki sínu innsæi og sannfæringu um hvernig hann vilji að einhver tiltölulegur hlutur sé í myndinni. Þá eru gífurlega miklar líkur að hún verði ekki jafn góð og hún gæti hafa orðið. Vissulega á maður hafa hæft fólk í hverri stöðu með sína sérfræðiþekkingu. En ef leikstjórinn hefur ekki vissa hugmynd um það sem hann vill gera verður myndin aldrei frábær. Hún verður að öllum líkindum eitthvað miðjumoð.

Stanley Kubrick og Sergio Leone eru dæmi um frábæra leikstjóra sem voru klárlega með OCD. Það þurfti allt að vera fullkomið og ekkert múður um það! Sergio var guð má vita hvað mörg ár að gera Once upon a time in America og Kubrick er alræmdur fyrir að brjóta niður leikara og láta þá endurtaka sömu senuna aftur og aftur þangað til leikarinn er ekki að leika lengur, hann er hluti af senunni. Þeir treystu engum betur en sjálfum sér, enda gerðu þeir líka frábærar myndir. Þessir menn voru kannski léttgeggjaðir en þeir voru snillingar á sínu sviði.



Það sama má segja um George S. Patton einn allra besta hershöfðingja 20. aldarinnar. Hann var ekki eins og fólk er flest. Hann trúði því að hann gæti ekki gert mistök og ef eitthvað fór úrskeiðis eða ekki eins og hann vildi að það hefði farið. Þá var málið einfalt. Þetta var vilji Guðs og úr þessum hremmingum myndi hann rísa aftur tvíefldur! Fyrir framan hermenn sýna stóð hann með glansandi hjálm og Colt Peacemaker með handfang úr fílabeini við mjöðmina. Hann var dramadrottning, hataði hermenn sem þoldu ekki álagið og trúði á endurfæðinguna og að hann væri fæddur til að vera stríðsmaður. Í gegnum aldanna rás hafði hann staðið á öllum helstu vígstöðum, barist með Rómverjum, Alexander Mikla og í Napóleónstyrjöldunum.



Patton lætur engan aumingjagang viðgangast.

Eitt skipti færði hann hermenn sína yfir meira en 160 kílómetra á 48 klukkustundum um hávetur til að hjálpa bandarískum hermönnum sem voru innikróaðir af Þjóðverjum. Þetta var talið ógerlegt en hermenn Pattons höfðu svo mikla trú á honum að þeim datt ekki einu sinni í hug að þetta væri jafn fáránlega út úr kú og það var í raun og veru.

Myndin kemur öllu þessu til skila og George C. Scott er óaðfinnanlegur sem Patton. Kvikmyndatakan er frábær og það sést frá fyrsta atriði myndarinnar sem allir ættu að þekkja. Atriðið þar sem Patton stendur fyrir framan fána Bandaríkjanna og fer með ræðu.

Í myndinni er líka bombu tónlist sem passar vel við andrúmsloft myndarinnar.



Francis Ford Coppola skrifaði handritið að myndinni og hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt viðtal þar sem hann talar um handritaskrifin, gerð myndarinnar og "mistök" sem geta leynt á sér.



Það að vera hershöfðingi og að vera leikstjóri eru nefnilega ekkert sérlega ólík störf. Maður þarf að hafa marga af sömu kostunum til að geta sinnt báðum stöðum.Ég held samt að ég myndi reyna að sleppa geðveikinni... eða svona eins og ég gæti.

http://en.wikipedia.org/wiki/George_S._Patton

Bottom line þetta er frábær mynd sem ég mæli eindregið með.

1 comment:

  1. Þetta er mynd sem ég hef lengi ætlað að sjá, en aldrei látið verða af því...

    Mjög fín færsla. 8 stig.

    ReplyDelete