Eftir veikindin ákvað ég að hætta þessum aumingjaskap og drífa mig í kvikmyndahúsin. 7 urðu víst myndirnar að lokum sem ég sá á RIFF. Raðað eftir mínum eigin styrkleikastuðul voru þær:
1. The American Astronaut
Ég ætla ekki að fjalla um The American Astronaut í þessari færslu því að mér finnst hún eiga sína eigin færslu skilið, bíðið í ofvæni. Slakið samt á.
2. Dear Zachary: A letter to a Son About His Father
Þessi mynd er gífurlega merkileg. Þá sérstaklega fyrir það að þetta var mín fyrsta mynd sem ég fór á EINN í bíó. Félagsveran ég sem get ekki þrifist í einrúmi og fær fráhvarfseinkenni ef hann er einn í meira en fimm mínútur fór eins míns liðs í bíó! Helvíti fraus, en OK hún er kannski ekkert merkileg fyrir það en þetta var merkilegt fyrir mig. Þetta var einnig fyrsta myndin sem ég sá og fór ég á hana eftir að hafa heyrt Darra mæla með henni. Ég sest niður í Iðnó og djöfullinn hafi það. Darri hafði góða ástæðu fyrir að mæla með þessari!
Ef ég þyrfti að gefa eina ástæðu um hvað gerir bíómyndir þess virði að horfa á. Þá yrði svarið auðvelt. Þær eru þess virði fyrir allar þær myndir sem algjörlega fanga mig, myndir sem mynda stemmningu sem gerir það að verkum að ég gleymi stað og stund og horfi á skjáinn dáleiddur og sú var raunin með Dear Zachary. Það er fátt sem ég elska meir og þegar þetta gerist.
Ég ætla ekki að fara þylja upp alla myndina hér, heldur fara stutt í það um hvað myndin snýst. Eins og nafn myndarinnar gefur til kynna þá er myndin ætluð dreng að nafni Zachary. Myndin er heimildarmynd um föður hans sem er látinn. Zachary fæddist eftir að faðir hans dó og er því myndin "bréf" til hans um hversu merkur maður faðir hans var. Það var upprunalegur tilgangur myndarinnar. Ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það og hafa spilla sem smávægilegasta í þessari umfjöllun.
Það er gott tempo í myndinni og hún heldur manni alltaf við efnið. Góð samtöl við vel valdna einstaklinga (oftast), gera það að verkum að myndin heppnast gríðarlega vel. Það fer ekki milli mála að þessi mynd mun kitla tárakirtla ófárra, enda var helmingur fólksins á þeirri sýningu sem ég fór á snöktandi í gegnum myndina og þá sérstaklega seinasta korterið. Það vöknuðu inni í mér margar tilfinningar við það að horfa á þessa mynd. Ég var í sjokki, sorgmæddur og en samt mest af öllu reiður. Hreint út sagt frábær mynd, óhefðbundin og átakanleg. Mæli eindregið með henni.
3. Firemen's Ball
Ég hef bæði séð Gaukshreiðrið og Amadeus og langaði ekkert sérlega mikið að sjá þær. Enda er ég frekar nýlega búinn að horfa á þær báðar. Svo ég fór á myndina sem ég hafði aldrei heyrt um eftir Milos Forman. Þetta er seinasta myndin sem hann gerði eftir að hann byrjaði að gera myndir á ensku. Ég fór á þessa mynd með engar sérstakar væntingar, ég vissi nákvæmlega ekkert um þessa mynd. Þetta er grínmynd sem tekur sig alls ekki alvarlega, algjör farsi. Slökkviliðsmennirnir eru meiri hálfvitarnir (verður að segjast) og það lítur út fyrir að þeir geti ekki gert neitt rétt. Það sem byrjar sem veisla til að heiðra fráfarandi formann slökkviliðsfélagsins snýst upp í einhverja fáránlega atburðarás. Það er það sem gerir myndina svona góða, að horfa á þetta rugl. Mér finnst innst inni mjög gaman að því að láta mér líða vandræðalega. Sérstaklega yfir einhverri svona mynd og það voru helling af vandræðalegum atriðum í þessari. Allt sem tengdist fegurðarsamkeppninni var gull að mínu mati og svo voru líka mörg önnur góð atriði. Þetta er mjög vel heppnuð gamanmynd og skemmti ég mér konunglega yfir henni. Öll tæknvinna, klipping og þess háttar er til fyrirmyndar og er ég ekki frá því að Milos er mjög hæfileikaríkur grínmynda leikstjóri.
4. Dogtooth
Ég veit ekkert hvað ég á að segja, eða hvað þá hvar ég á að byrja með þessa mynd! Djísus kræst maður. Þó að mér finnist gaman að láta mér líða vandræðalega á myndum þá dansar það á hárfínri línu. Oft á tíðum leið mér hreinlega bara illa að horfa á þesa mynd. Það þýðir samt ekki að mér fannst hún léleg. Þó ég skemmti mér ekki konunglega á henni þá er þetta ein svakaleg mynd. Alveg ótrúleg. Ég greip um munninn og horfði til hliðina á fólkið í salnum oftar en einu sinni og spurði sjálfan mig: "Má þetta?!?".
Eins og leikstjórinn sagði í Q & A-inu eftir myndina þá fjallar myndin um það hvað fjölskyldan er viðkvæmt málefni fyrir marga og hvað við viljum oft halda henni út af fyrir okkur og kærum okkur stundum ekkert um álit annarra. Myndin tekur þetta út í öfgar svo það nálgast svona einhvers konar "góðhjartað" Fritzl scenario. Börnin hafa aldrei farið út fyrir garðinn á heimilinu og lifa eftir lögum húsföðursins. Það var hrein og bein lífsreynsla að horfa á þessa mynd. Mörgum atriðum mun ég muna eftir eflaust lengur en ég kæri mig um og önnur sem mér fannst alveg frábær t.d. dansatriðið þar sem sonurinn spilar undir á gítar. Mjög góð hugmynd sem sýnir á vissan hátt hvernig fólk myndi tjá sig og reyna leitast eftir athygli ef það fengi enginn áhrif frá hinum utanaðkomandi heimi. Atriðið líka með elstu dótturina og handlóðið það var alveg svakalegt. Held ég segi ekki meira um það, þeir sem hafa séð myndina vita hvað ég er að tala um.
Eitt sem er athyglisvert er hvað ég hló mikið á þessari mynd. Það er eiginlega fáránlegt. Sum atriði voru vissulega fyndin til dæmis þegar móðirinn segir að "zombies" séu lítil gul blóm og þegar gamli blue eyes er settur á fóninn og afi sagður vera að syngja til krakkana. En svo voru atriði sem voru eins og ég hef minnst á ALLS EKKERT fyndinn og annað hvort hræðileg eða bara alveg fáránleg. Oft á tíðum fór ég að hlæja að þessum atriðum sem ég held að hafi verið út af því (djöfull vona ég það) að ég var bara ekkert að búast við þeim og einu viðbrögðin sem ég gat sýnt var hlátur til þess að sýna hvað mér fannst þetta fáránlegt! Ekki vissi ég hvað annað ég ætti að gera!
Ég er búinn að velta því fyrir mér hvort mér finnist þessi mynd góð eða ekki í langan tíma. Ég get ekki sagt annað en að þessi mynd sé frábær núna þó hún sé alls ekki fyrir alla og mun örugglega ganga fram af mörgum þá verð ég að segja að þessi mynd er frábær.
5. Mommy Is at the Hairdresser's
Yndisleg mynd sem einblínir á líf nokkra krakka í úthverfi yfir heilt sumar. Til að byrja með er lífið dans á rósum fyrir alla og það er eins og ekkert geti farið úrskeiðis. Stundum finnst mér erfitt að taka barnaleikara alvarlega í hlutverkum og finnst þau vera ótrúverðug, sem er nú kannski ekkert óvenjulegt enda eru þetta þegar allt kemur til alls einungis börn. Lenti einmitt í þessu með myndina "Let the right one in". Hinsvegar fannst mér krakkarnir í þessari mynd og þá sérstaklega elsta stelpan sýni frábæran leik, alveg hreint til fyrirmyndar.
Myndatakan var góð og kannski ekkert ofur stíliseruð en það voru nokkur góð skot í myndinni, t.d. þegar þau hlaupa í gegnum akurinn. Það sem mér fannst flottast við myndina var 60's stemmningin. Búningarnir og heildarlúkk myndarinnar finnst mér frábært. Þetta var líka ansi öðruvísi í þá daga, mamman var heima með krakkana og ól þá upp meðan pabbi gamli kom heim með beikonið. Sem tengist því næsta sem ég vil tala um.
Það er nefnilega ekkert alltaf allt eins og það á að vera. Það getur allt litið vel út á yfirborðinu en hver einasta fjölskylda á þessari guðsblessuðu jörð á við einhver vandamál hvort þau séu smávægileg eða stórvægileg að stríða. Þetta var klárlega það sem seldi mér myndina. Skemmtileg þroskasaga sem sýnir að lífið er nefnilega ekkert dans á rósum. Lífið er flókið, en það er hvernig við tökumst á við þessar flækjur sem skiptir höfuðmáli.
Já þessi mynd lét mig kannski hugsa einum of mikið, en þetta ættu allir að þekkja úr sínu eigin lífi. Það mun enginn segja mér að hann lifi fullkomnu lífi og ekkert slæmt hafi nokkurn tíman hent hann. Ég myndi finna til með þeirri manneskju. Eitthvað væri hún afskaplega karakters laus. Flott mynd og góð dægrastytting, dautt mál.
6. Stingray Sam
Annar geimvestra vísindaskáldsögu söngleikur eftir Cory McAbbe. Þessi mynd er ekki jafn góð og The American Astronaut en samt sem áður hin fínasta skemmtun. Þó að myndirnar eru að mörgu leyti líkar (báðar geimvestra vísindaskáldsögu söngleikur) þá eru nokkur en mikilvæg atriði sem skilja þau að. Stingray Sam er t.d. skipt upp í 6 hluta og er myndin gerð með það í huga að það væri hægt að horfa á hana á næstum hvaða skjá sem er, stórum sem litlum. Að mínu mati eyðilagði 6 hluta skiptingin flæði myndarinnar þar sem eftir hvern einasta hluta kom intro-ið aftur og leikarar kynntir til leiks, það var ekki alveg að virka fyrir mig. Annað sem gerir þessa mynd verri en AA ef ég ber þær saman er það að kvikmyndatakan í þessari er alls ekki jafn flott og í American Astronaut. Hér er ekkert verið að leika sér með skugga eða stilla upp atriðum eitthvað sérstaklega (báðar myndirnar eru í svarthvítu), sem mér fannst gríðarlega leiðinlegt því AA er nefnilega listavel gerð að því leyti. Báðar þessar myndir innihalda gríðarlega mikið af súru gríni og fannst mér það ekki skila sér alveg jafn vel í þessari. Söngatriðin eru auðvitað stór hluti af því og eins og ég segi þá fannst mér þau vera frekar mikið "hit and miss". Eitt lag var reyndar yndislegt sem ég var með á heilanum í doldinn tíma eftir á. "Baby Stingray" . (Nafna lagið var líka helvíti fyndið!)
"Will it be a boy or a daughter,
Will it be a stingray in the water."
"And Frederick and Edward had a son named Fredward."
Það sem gerði myndina samt vel þess virði að sjá fyrir mig var þulurinn. David Hyde Pierce (Niles úr Frasier ef það segir einhverjum eitthvað) sá um það. Oftast í byrjun hvers nýs kafla kom oftast svona "cut-scene" þar sem að farið var yfir heildarplott myndarinnar og eiginlega allt sem skipti máli. Þessi atriði voru oftast frekar fyndinn og maður missti ekki athyglina yfir þeim. Ég er reyndar doldið mikill Hitchiker's guide aðdáandi og þetta svipaði ekkert lítið til inngangana sem eru í myndinni og í bókunum svo það gæti verið ástæðan afhverju ég fýlaði þetta svona mikið. Myndin er augljóslega gagnrýni á samfélagið í B.N.A, hversu heimskt fólk er orðið og einnig markaðssetningu og ömurlegt fangelsiskerfi sem er þar að finna og er að því leyti mjög sniðug en hún er alls ekki á sama stigi og AA því miður.
Hérna er trailerinn fyrir hana:
7. The Red Race
Eina myndin sem ég sá á RIFF sem mér fannst ekkert sérstök! Myndin fjallaði um börn í Kína sem æfðu fimleika og hversu miklar væntingar eru gerðar til þeirra. Til þess að ná sem bestum árangri eru börnin beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi og ásamt því fara þau í gegnum fáránleg æfinga prógrömm sem að ekkert barn ætti að þurfa að upplifa. Efnið er því eins og sést mjög áhugavert, en það var bara ekki nóg. Það voru engin viðtöl og það var ekkert útskýrt sérstaklega um umhverfi barnanna. Ég komst aldrei inn í myndina út af þessu og var ég fyrir vonbrigðum með hana. Það var samt alveg ótrúlegt að sjá við hversu erfið skilyrði þessi börn lifa við og hversu mikið er búist við af þeim, það er hreinlega sjúkt. Það fékk mig til að hugsa um hvað takmarkið náði á engann hátt að helga meðalið. Aldrei myndi ég vilja að í mínu samfélagi væri það sem skipti máli væri þjóðin en ekki einstaklingurinn. Þótt að við sem þjóð myndum ná góðum árangri á sviði íþrótta, vísinda eða bara hverju sem er þá er það ekki þess virði ef að fólkið í landinu er þunglynt og líður illa. Hér er dæmi um heimildarmynd sem fjallar um gott efni en nær ekki að koma því nægilega vel á framfæri.
Þrátt fyrir veikindin þá náði ég þó að komast á einhverjar myndir á RIFF og get ég ekki sagt annað en að ég sjái alls ekki eftir að hafa farið á þessa kvikmyndahátíð. Ég mun pottþétt gera það á næsta ári og reyna komast á enn fleiri myndir. Finnst mér líka ótrúlegt hvað ég var ánægður með næstum allar myndirnar! Ekkert nema jákvætt við það.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Þú hefur greinilega verið nokkuð heppinn með myndir.
ReplyDeleteÉg er sammála þér með Stingray Sam, mér fannst þáttauppbyggingin verða soldið þreytt.
Varðandi Red Race: Ég sá hana ekki, en það hljómar eins og hún hafi átt að vera í Cinema vérité stílnum (þ.e. engin viðtöl og myndavélin "ósýnileg"), og það hafi einmitt verið það sem fór í taugarnar á þér. Skil það vel, þessi stíll hentar ekkert fyrir allt.
Mjög fín færsla. 9 stig.