Saturday, October 31, 2009
To Be The American Astronaut!
American Astronaut
Ég vil fá eitt á hreint áður en við höldum lengra. Þessi mynd er algjör gargandi snilld. Án efa skemmtilegasta myndin sem ég fór á á RIFF og ég mun klárlega muna eftir henni lengst. Ætla örugglega að panta mér hana af netinu. Ég hef ekki séð margar CULT myndir, en þetta hlýtur eiginlega að vera skilgreining á CULT mynd. Í fyrsta lagi þá er hún svarthvít. Í öðru lagi þá er hún ógeðslega skrítin. Í þriðja lagi þá er hún gerð á mjög lágum budget og í fjórða lagi þá eru söngatriði í henni! Ótrúlega góð söngatriði, mind you.
Ég var það heppinn að fá að vera á Q & A með leikstjóra myndarinnar sem einnig leikur aðahlutverkið, Cory McAbbee. Það er einn hæfileikaríkur maður. Listmálari, leikari, leikstjóri og tónlistarmaður, það var skemmtilegt að fá að heyra í honum og hvað honum fyndist um myndina og líka t.d. hversu erfið hún hefði verið í dreifingu (kom út 2001, frumsýnd í New York helgina eftir 9/11 og fékk dræma aðsókn skiljanlega, var svo frumsýnd í San Francisco samdægurs og það var bílasprenging þar...). Ég get ekki beðið eftir að sjá hvað hann gerir meira í framtíðinni. Öll tónlist í myndinni er eftir hljómsveitina hans "The Billy Nayer Show" og þegar ég fór á þessa mynd var ég smá efins og eftir fyrstu fimm mínúturnar var ég ekki alveg viss hvort ég fýlaði þetta. En eftir 'Hertz Donut?' söguna í byrjun og fyrstu söngatriðin fattaði ég að þessi mynd væri snilld. Tónlistin og tónlistatriðin í þessari mynd eru mjög flott og það er eitthvað við þennan heim sem McAbbee bjó til sem passar svo vel við tónlistina. McAbbee sagði í Q & A session-inu að hann hefði storyboardað ALLA myndina, og það sést. Myndin er í svarthvítu og það eru ófá atriði í myndinni sem eru gífurlega flott vegna hversu vel skuggar eru notaðir í þeim. Það eru líka mörg skot í myndinni sem eru mjög flott og það sést að það hefur verið mikið pælt í þeim. Hér er til dæmis eitt mjög snemma í myndinni sem ég dýrka og uppfyllir það tvennt sem ég nefndi ég hér á undan. Byrjar um 5:40 og endar um 7: 50.
Bar senan á loftsteininum Ceres
Annað sem McAbbee gerði var að hann málaði með vini sínum öll atriðin þar sem geimskipið er að ferðast um alheiminn. Það er mjög flott og virkar miklu betur heldur en ef eitthvað greenscreen eða animation hefði verið notað. T.d. er þetta miklu flottara en það sem var notað í Stingray Sam.
Þessi mynd hefur eiginlega gert það að verkum að ég er opnari fyrir fjölbreyttari kvikmyndagerð. Hún er fyndin og skemmtileg ásamt því að vera mjög flott. Djöfull var það líka hressandi að sjá mynd sem er ekki eins og allar þessar Hollywood myndir sem eru mataðar ofan í mann á hverjum degi (þær eru þó nú ekkert allar slæmar svosum). Ég er þakklátur RIFF fyrir að minna mig á það að það eru til fleiri myndir heldur en bara þær sem koma venjulega í bíó.
American Astronaut er uppfull af skemmtilegum persónum og sú minnistæðasta í mínum huga er klárlega Professor Hess. Rocco Sisto leikur þennan geðveika mann sem eltir söguhetjuna á röndum og losar sig við alla aðra sem á vegi hans verða í leiðinni (hann gerir það því hann hefur enga ástæðu til að losa sig við þá, og því er það í lagi. Þetta meikar sens fyrir hann). Rocco fer með sannkallaðan stórleik í þessari mynd.
Ég get ekki dásamað þessa mynd meir held ég. Hún er samt eins og allar aðrar CULT myndir eru: Ekki fyrir alla. Annað hvort elskarðu þessa mynd eða að þú þolir hana ekki. Ég og minn súri húmor elskum þessa mynd skilyrðislaust og er hún ein besta mynd sem ég hef séð á árinu.
Hér er eitt atriði þar sem Professor Hess syngur um partý, hann á nefnilega afmæli. Byrjar um 5:00 og er til 8:55.
Myndin er til í heild sinni á youtube og mæli ég með því að fólk tjékki á henni ef það hefur tíma til að brenna. Þessi mynd er klárlega þessi virði. Best væri auðvitað að sjá hana í bíósal eða kaupa hana af netinu, en ekki getum við öll verið svo heppinn. Fyrsta hluta myndarinnar getið þið fundið í fyrra youtubebrotinu sem er í þessari færslu.
Eins og ég sagði í byrjun þá er þessi mynd gargandi snilld og það er svo margt sem mér finnst gott við hana að mér byrjar að svima þegar ég hugsa út í það allt.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Ég missti af þessari, en náði mér í hana á netið eftir að RIFF lauk. Hún er vissulega ansi hreint skemmtileg, og margt alveg yndislega súrt.
ReplyDeleteFlott færsla. 8 stig.