Sunday, November 22, 2009

Unforgiven


Unforgiven

Fyrir tæpu einu og hálfu ári ákvað ég að ég ætlaði horfa á þessa mynd um leið og ég myndi finna hana einhvers staðar á leigu. Ástæðan fyrir þessu var sú að ég var niðursokkin í myndasögu að nafni Preacher.

Það var ekki fyrr en síðastliðið sumar sem ég byrjaði að lesa einhverjar myndasögur. Sögur sem höfðu gífurleg áhrif á þann miðil og í leiðinni á kvikmyndaiðnaðinn. The Dark Knight Returns eftir Frank Miller t.d. svipar að ýmsu leyti til mynda Nolans. 300 eftir sama höfund er búið að gera kvikmynd um. Watchmen sem er líka búið að gera kvikmynd um er eftir sama leikstjóra og 300. Sandman serían sem mun eflaust vera kvikmynduð er eftir höfundinn Neil Gaiman sem skrifaði einmitt skáldsögurnar Coraline og Stardust sem eru núna kvikmyndir og mæli ég eindregið með þeirri fyrrnefndu, ein af betri myndum sem ég hef séð í ár. (Og djöfull er þetta allt ruglingslegt.)

Í núverandi sköpunarleysi Hollywood hafa eins og raun ber vitni myndasögur orðið að guðsgjöf. Það er mitt álit að það sé nærri ógerlegt að reyna færa eitthvað úr einum miðli yfir í annan og ætlast til að þess að það sé jafn gott eða hvað þá betra en upprunalega efnið. Þó að myndasögur og kvikmyndir séu bæði sjónrænir miðlar þá er uppbygging þeirra ekki sú sama. Samt sem áður eru til undantekningar á þessu eins og Coraline, The Dark Knight og V for Vendetta.

Ástæðan fyrir því að ég minntist á þetta allt er að það er persóna í Preacher sem fær innblástur sinn í hlutverk Clint Eastwood úr Unforgiven og þetta er eitthvað sem mér finnst að ætti frekar að vera gert með báða miðla. Það er að nota þá sem innblástur fyrir hvorn annan og gera eitthvað nýtt og skapandi með þá sem hentar þeirra uppbyggingu.

Þegar ég las innganginn fyrir eina bókina komst ég að því að Garth Ennis höfundur Preacher elskaði vestra og sér í lagi þá gömlu (The Duke er t.d. einskonar samviska aðalpersónurnar og birtist við og við með góð ráð). Þar lýsti hann því yfir að ein aðalpersónan sem er mesti nagli í alheiminum (með hið gífurlega hóflega nafn Saint of Killers) sé byggður á William Munny. Ég elskaði þá persónu og því varð ég einhvern tímann að sjá þessa mynd.

Unforgiven er frábær mynd og hún er í algjöru uppáhaldi hjá mér einmitt núna. Þetta er gífurlega góð saga sem er sögð listavel á mjög einfaldan máta og gott dæmi um það er hversu góð persónusköpunin er. Hún er aldrei þvinguð eða sérstaklega augljós. Myndin hefur því augljóslega gott flæði.

Myndatakan er hreint út sagt stórbrotinn. Landslagið er með því fallegasta sem ég hef séð í mynd. Skotunum er alltaf vel stillt upp og ef ég þyrfti að lýsa þeim myndi ég segja að þau væru líkt og eitthvað sem að Sergio Leone hefði gert ef hann væri afslappaðari og ekki með jafn mikla fullkomnunaráráttu. Það eru svo mörg skot sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um þessa mynd. Þegar Clint heimsækir leiði konu sinnar t.d. og öll lokasenan á barnum þar sem Clint sýnir að hann hefur engu gleymt og er jafn harður og hann var fyrri daginn.

Sú sena er algjörlega hápunktur myndarinnar og ef þið hafið ekki séð myndina þá mæli ég með að þið horfið ekki á brotið hér fyrir neðan og að drífa sig svo að horfa á þessa mynd. Magnað þegar haglabyssan er sýnd og það heyrist í óveðrinu úti. Fyrir alla aðra þá má finna brotið hér:



Unforgiven gæti verið talin sérstök að því að leyti að það er mjög óskýrt hvar mörkin liggja milli góðs og ills. Það er klárt mál að Clint sé söguhetjan og að antagonistinn sé Gene Hackman sem 'Litle Bill' en þessu gæti mjög auðveldlega verið öfugt farið og myndin sögð með Gene sem aðalsöguhetjuna. Hér eru engar ljósar eða dökkar hetjur að finna. Clint telur sig vera breyttan mann, að hann sé orðinn góður og heiðarlegur maður með hjartað á réttum stað en hver hefur sinn djöful að draga og í hans tilfelli þá er óhætt að segja að hann sé með sjálfan Lúsífer í stuttum taumi. Gene leikur hinsvegar fógeta sem telur sig vera með þær reglur og gildi sem skipta máli í lífinu á hreinu. Vill svo til að hann er ekki óhræddur við að framfylgja þeim með hrottalegri hegðun, sem er svo sannarlega ekki í samræmi við það sem hann prédikar. Eitt er samt víst, og það er að hér er um að ræða tvær mjög eftirminnilegar frammistöður.

Morgan Freeman stendur sig með ágætum sem Ned. Ég held að þetta sé fyrsta myndin sem ég sé með Morgan þar sem hann er ekki alvitur og með allt á hreinu. Seinasta manneskjan á lista yfir þetta leikara stórskotalið er Richard Harris sem fer á kostum sem English Bob. Hrokafullt skítseyði sem samt sem áður kann sitt hvað á sexhleypu og nýtir sér það til hins ýtrasta.

Því meira sem ég pæli í myndinni og því fleiri dagar sem líða frá því að ég sá hana verður hún enn betri. Það er alveg magnað. Atburðarrásin og leikurinn er mjög góður en það sem meira er þá er framleiðslan á myndinni í alla staði nærri því fullkominn hvort sem um er að ræða leikstjórn, myndatöku, búninga eða bara hvað sem er og það að mínu mati gerir þessa mynd frábæra.

1 comment:

  1. Mjög góð færsla. 9 stig.

    Hollywood náttúrulega þorir ekki að taka áhættuna á nýju efni. Þeir líta svo á að þeir séu að leggja það rosalegan pening í þessar myndir, að þeir vilja vera vissir um að þær hafi áhorfendur, og þess vegna er þetta ein endurvinnslan á fætur annarri. Það er einmitt gert skemmtilegt grín að þessu í nýlegum Simpsons þætti þar sem Hollywood kaupir réttinn að myndasögu eftir Comic Book Guy...

    Vestrar eru skemmtileg kvikmyndagrein, og sérlega áhugavert að skoða þróun þeirra í gegnum tíðina, en ein augljósasta þróunin er breytingin frá svart-hvítum heimi þar sem hið góða berst við hið illa yfir í miklu grárri heim þar sem hetjan er ekki algóð og vondi kallinn ekki alslæmur.

    ReplyDelete